Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Nýr Matvælasjóður fær hálfan milljarð

Kristján Þór Júlíusson
 Mynd: Golli - Ljósmynd/
Fleiri störf í matvælaframleiðslu, aukin neysla á innlendri matvöru og nýsköpun í matvælaframleiðslu er á meðal þess sem nýjum Matvælasjóði er ætlað að gera. Hann var kynntur í morgun og matvælaframleiðendur geta nú sótt um styrk úr sjóðnum.

Kristján Þór Júlíusson landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra tilkynnti um stofnun sjóðsins í sjávarútvegsráðuneytinu í morgun. Matvælasjóður kemur í stað tveggja sjóða, Framleiðnisjóðs landbúnaðarins og Rannsóknarsjóðs í sjávarútvegi. Hann fær 500 milljóna króna stofnframlag og að auki það fé sem sjóðunum tveimur var ætlað í ár. Samtals eru því um 800 milljónir til ráðstöfunar úr sjóðnum nú.

„Ég er ekkert í vafa um það að þetta verkefni verður til þess að taka stór skref á sviði verðmætasköpunar á Íslandi þegar til lengri tíma er litið og örugglega líka einhver verkefni til skamms tíma sem munu skila auknum verðmætum, nýjum störfum og aukinni framleiðni,“ segir Kristján Þór.

Gréta María Grétarsdóttir stjórnarformaður Matvælasjóðs segist eiga von á að hlutfall umsókna frá landbúnaði og sjávarútvegi verði nokkuð svipað, en ekki sé eyrnamerkt fjármagn fyrir hvorn geira fyrir sig. „Miðað við þann kraft sem er í þessum grunnatvinnugreinum í landinu óttumst við ekki að það muni halla á annan aðilann.

Matvælasjóður skiptist í fjórar deildir: 

 

  • Kelda styrkir rannsóknaverkefni sem miða að því að skapa nýja þekkingu.
  • Afurð styrkir verkefni sem komin eru af hugmyndastigi en eru þó ekki tilbúin til markaðssetningar, en leiða af sér afurð.
  • Bára styrkir verkefni á hugmyndastigi. Styrkur úr Báru fleytir hugmynd yfir í verkefni.
  • Fjársjóður styrkir sókn á markað. Fjársjóður er samansafn verðmætra hluta og styrkir fyrirtæki til að koma sínum verðmætum á framfæri.

 

Spurður hvers hann vænti af nýja sjóðnum segist Kristján Þór telja að þessi stuðningur hins opinbera muni leiða til þess að mikilvægi matvælaframleiðslu á Íslandi verði einn meira en verið hefur. „Og muni taka í rauninni framleiðsluna á þann stað að við búum til aukin verðmæti úr þeim takmörkuðu auðlindum sem landið býr yfir,“ segir Kristján Þór.

 

 

annalth's picture
Anna Lilja Þórisdóttir