Leggja til tónlistarbótasjóð

Mynd með færslu
 Mynd: AFES - Aldrei fór ég suður

Leggja til tónlistarbótasjóð

02.09.2020 - 12:39

Höfundar

Lagt er til að stofnaður verði tónlistarsjóður að danskri fyrirmynd til að styðja við tónistariðnaðinn, bæði listamennina sjálfa sem og aðra sem koma að tónleikahaldi og fleiru. Fólk í greininni hélt fjarfund í hádeginu þar sem nýlega skýrsla um stöðu greinarinnar var rædd.

Það er ekki gigg var yfirskrift fjarfundarins sem ÚTÓN, Tónlistarborgin Reykjavík, FÍH og STEF stóðu fyrir, en eins og kunnugt er hefur tónleikahald meira og minna legið niðri, jafnt litlir tónleikar sem stórar hátíðir. Á fundinum var einnig rædd nýleg skýrsla um áhrif COVID-19 á íslenskan tónlistariðnað.

„Skýrslan sýnir í raun og veru að þær aðgerðir sem að farið hefur verið í til handa tónlistariðnaðinum hefur fyrst og fremst verið beint að tónlistarfólkinu, eða listafólkinu sjálfu, sem er mjög gott og vel, en það sem við höfum verið að benda á er að tónlist er líka iðnaður og það er svo mikið af fólki og fyrirtækjum sem starfa með og fyrir tónlistarfólkið okkar sem skiptir gríðarlega miklu máli. Þannig að þetta hangir allt saman saman,“ segir María Rut Reynisdóttir annar ritstjóra skýrslunnar.

Þar má nefna tónleikastaði, tæknimenn, tækjaleigur og fleira. María Rut segir að skýrslan hafi fengið jákvæð viðbrögð hjá stjórnvöldum og verið sé að ræða við mennta- og menningarmálaráðuneytið. Hún segir að kallað sé eftir heildstæðum aðgerðum.

„Eitt af því sem við höfum lagt mikla áherslu á er að það verði farið  í einhvers konar bótasjóð og þá höfum við verið að líta til Danmerkur og kallað það dönsku leiðina. Þar var búinn til sjóður til að styðja við listafólk og sömuleiðis sjálfstætt starfandi aðila í tónlistariðnaðinum og fyrirtæki. Þar var hægt að sækja um fyrir bótum fyrir tekjufalli, þannig að þeir sem höfðu orðið fyrir 30% tekjufalli eða meira gátu sótt um bætur þar. Við höfum svolítið verið að horfa til þessarar leiðar.“

Þá segir hún horft til þess að stofna tónlistarráð, í anda kvikmyndaráðs. Einnig þurfi greinin sjálf að skipuleggja sig betur og vinna betur saman. Margt tónlistarfólk starfi bæði sem launþegar og verktakar og mörg þeirra úrræða sem stjórnvöld hafa gripið til nái ekki til þessa hóps. Þetta og margt fleira ræddi greinin í hádeginu.

Og vonast til að fljótlega verði gigg?
„Já, nákvæmlega.“