Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Kubbuðu meira í COVID

02.09.2020 - 13:53
epa03436621 People enjoy construction toys by Lego during the first day of Lego World, in Zwolle, the Netherlands, 17 October 2012. Lego World, 12th edition runs from 17 to 23 October.  EPA/FERDY DAMMAN
Lego World í Zwolle í Hollandi. Mynd: EPA
Danski leikfangaframleiðandinn Lego var rekinn með hagnaði upp á 15,7 milljarða danskra króna á fyrri hluta ársins Fólk lét samkomutakmarkanir og jafnvel útgöngubann vegna kórónuveirufaraldursins ekki stoppa sig í að kubba. Þvert á móti því salan jókst um fjórtán prósent og hagnaður Lego um ellefu prósent. Fyrirtækið hefur lagt aukna áherslu á sölu á netinu og á fyrri hluta árs fékk heimasíða Lego 100 milljón heimsóknir.

Þetta kemur fram í uppgjöri félagsins sem var birt í dag. Salan á Lego-vörum jókst um fjórtán prósent og tekjur fyrirtækisins um sjö prósent. Munurinn skýrist af því að smásalar nýttu birgðir sem þeir voru búnir að fá áður en faraldurinn skall á. Erfiðlega gekk að fá nýjar vörur á tímabili þegar loka þurfti verksmiðjum Lego í Mexíkó og Kína. Jafnframt þurfti að loka öllum 616 verslunum fyrirtækisins á heimsvísu um lengri eða skemmri tíma. Hagnaður fyrirtækisins var ellefu prósentum meiri fyrstu sex mánuði ársins en á fyrri hluta síðasta árs.

Forsvarsmenn Lego segja að söluaukningin hafi haldið áfram fram á seinni hluta árs. 

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV