Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Hildur Guðna og Víkingur verðlaunuð í Þýskalandi

Mynd með færslu
 Mynd: Rafael Roy/Sinfóníuhljómsveit - RÚV-Samsett mynd

Hildur Guðna og Víkingur verðlaunuð í Þýskalandi

02.09.2020 - 17:08

Höfundar

Víkingur Heiðar Ólafsson píanisti og tónskáldið Hildur Guðnadóttir hlutu verðlaun á þýsku verðlaunahátíðinni Opus Klassik sem tilkynnt var um í gær.

Víkingur var verðlaunaður sem besti einleikarinn á píanó fyrir flutning sinn á verkum frönsku tónskáldanna Debussy og Rameau en Hildur vann í flokknum „nýstárlegustu tónleikar ársins“. Víkingur hefur hlotið mikið lof fyrir plötu sína Debussy-Rameau og prýddi meðal annars forsíðu tímaritsins Gramophone fyrr á árinu. Þá sagði gagnrýnandi Times um plötuna: „Í meðförum Víkings umbreytast þessi fyrirbæri í tónlist sem geislar af léttleika og fegurð og fögnuði í hverjum lífsins krók og kima. Að hlusta á Víking leika þessi verk er líkast því að svífa um á töfrateppi.“

Sigurgöngu Hildar Guðnadóttur fyrir tónlist sína úr Tsjernobíl og Joker er of langt mál til að rekja hér en hún hefur hlotið flest þau verðlaun sem hugsast getur undanfarið ár, þar á meðal Óskar, Grammy og Emmy. Opus Klassik-verðlaunin eru ný af nálinni en til þeirra var stofnað eftir að Echo-verðlaunahátíðin var lögð niður fyrir tveimur árum. Þau eiga að vekja athygli á tónlistarfólki sem skarað hefur fram úr í klassískri tónlist. Á hátíðinni voru verðlaun veitt í tuttugu og fimm flokkum. Í fyrra vann Víkingur einnig til verðlauna fyrir píanódisk ársins og Benedikt Kristjánsson tenór í sama flokki og Hildur Guðnadóttir nú. Finna má frekari upplýsingar um hátíðina og verðlaunahafa á vef hennar.

Tengdar fréttir

Menningarefni

Hildur Guðnadóttir hlaut sjónvarpsverðlaun BAFTA

Klassísk tónlist

Býr til samtal sem aldrei varð

Sjónvarp

Hildur Guðnadóttir ekki tilnefnd til Edduverðlauna

Klassísk tónlist

Víkingur og Benedikt verðlaunaðir í Þýskalandi