Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Gagnrýna breyttan lánstíma hlutdeildarlána

02.09.2020 - 18:20
Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV
Önnur umræða fer nú fram um frumvarp barna- og félagsmálaráðherra um hlutdeildarlán ríkisins sem eiga að auðvelda láglaunafólki að koma sér upp þaki yfir höfuðið. Breyting á ákvæði um lánstímalengd fór fyrir brjóstið á stjórnarandstæðingum.

Nokkrir stjórnarandstæðingar gagnrýndu breytingartillögu meirihluta velferðarnefndar við frumvarp ráðherra. Samkvæmt tillögunni verður lánstíminn ekki 25 ár eins og í frumvarpi ráðherra heldur tíu ár. Síðan má framlengja lánið allt að þrisvar í fimm ár að því tilskildu að lántakandi hafi sótt námskeið um endurfjármögnunarmöguleika.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, mælti með breytingunni. „Og hvort að háttvirtur þingmaður telji það ekki vera til bóta að þessi ráðgjöf sem við setjum inn í og við leggjum svo mikla áherslu á sé ekki alltaf til bóta.“

„Þetta snýst ekkert um þessa ráðgjöf. Þetta snýst um það að það er verið að stytta lánstímann úr 25 í tíu,“ sagði Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar. Hún sagði hægt að bjóða upp á námskeið hvenær sem er án þess að stytta lánstímann.

Guðmundur Ingi Kristinsson, þingflokksformaður Flokks fólksins, kvaðst óttast að ákvæði um að greiðslubyrði af húsnæðislánum yrði ekki meira en 40 prósent af tekjum fólks bitnaði á láglaunafólki og þó sérstaklega bótaþegum. „Þannig að þarna sýnist mér stefna í 70 til 80 prósent og verið að útiloka þennan hóp.“

„Ég hef mínar efasemdir um að þetta komi lágtekjufólki vel,“ sagði Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata. Hann kvað skilyrði um lánstímalengd íþyngjandi, og að það gæti reynst lágtekjufólki ofviða að þurfa að taka annaðhvort verðtryggt 25 ára lán eða óverðtryggt 40 ára lán.