Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Forstjóri Ernis: „Okkur er bara að blæða út á þessu“

02.09.2020 - 12:27
Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Forstjóri Flugfélagsins Ernis segir að fækkun farþega og hörð samkeppni við ríkisstyrktar siglingar liggi að baki ákvörðun um að hætta flugi til Vestmannaeyja. Hann segir öruggt að ríkið tryggi samgöngur til Eyja.

„Það er yfirleitt ekki einkafyrirtæki sem eru að halda uppi almenningsamgöngum nema það sé borgað fyrir það á þeim leiðum sem ekki eru að borga sig, ef það er talið nauðsynlegt að halda því gangandi. Því miður þá er það staðreyndin að okkur er bara að blæða út á þessu,“ segir Hörður Guðmundsson, forstjóri flugfélagsins Ernis.

Hann segir að félagið hafi getað haldið uppi áætlunarflugi til Eyja síðustu ár með því að nýta mannskap og tæki á milli þess sem flogið er annað. En undanfarið hafi verið hægt að telja fjölda farþega til Eyja á fingrum annarar handar.

„Það borgar ekki einu sinni lendingargjald til Isavia eða önnur gjöld sem hið opinbera krefst af ferðinni.“

Hefurðu heyrt frá Eyjamönnum, skilja þeir þessa ákvörðun?

„Já, ég held það nú að menn skilji það. En bara með flugrekstur almennt, hann á bara í vök að verjast á öllum sviðum.“

Eyjar ekki skildar eftir samgöngulausar

Samgöngur milli lands og Eyja eru í mikilli óvissu, en öllum starfsmönnum Herjólfs hefur verið sagt upp. Hörður segir að ef ríkið kæmi að, og niðurgreiddi flugið eins og siglingarnar, breytti það engu um ákvörðun félagsins.

„Ef það á við um flugið líka þá verður væntanlega fundin einhver leið, en því miður þá er sú leið ekki hjá okkur. Það eru þeir sem eiga að njóta þjónustunnar sem verða að berjast þá fyrir því að fá þá þjónustu veitta. Það verður væntanlega haldið áfram einhverjum siglingum, og Vestmannaeyjar verða ekkert skildar eftir samgöngulausar,“ segir Hörður Guðmundsson, forstjóri Ernis.