Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Flestir eru ánægðir með sóttvarnaraðgerðir

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Flestir Íslendingar eru ánægðir með sóttvarnaraðgerðir á landamærunum og meirihluti landsmanna voru sáttir við það þegar aðgerðir voru hertar 19. ágúst. Þetta er meðal þess sem fram kemur í könnun Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands þar sem viðhorf fólks til sóttvarnaraðgerða voru könnuð.

Þau Sigrún Ólafsdóttir og Jón Gunnar Bernburg, prófessorar í félagsfræði við HÍ, Magnús Þór Torfason, dósent í viðskiptafræði við HÍ og Guðbjörg Andrea Jónsdóttir forstöðumaður Félagsvísindastofnunar sömdu könnunina og höfðu umsjón með henni. Hún var gerð daglega síðustu tvær vikurnar í ágúst og fólki var boðið að svara á þrennan hátt: hvort það vildi hertar aðgerðir, óbreyttar eða vægari aðgerðir.

Meðal þess sem fram kemur í niðurstöðunum er að um það bil tveir af hverjum þremur vilja óbreyttar aðgerðir innanlands, 13% vilja að slakað verði á þeim og um fjórðungur vill harðari aðgerðir innanlands.

Helmingur vill óbreyttar aðgerðir á landamærunum, þriðjungur vill herða aðgerðir þar og um 13% vilja að aðgerðir á landamærunum verði vægari.

Konur og eldra fólk vilja harðari aðgerðir

Konur og eldra fólk vilja almennt frekar herða aðgerðir en karlar og þeir sem yngri eru. Það sama gildir um þá sem hafa mestar áhyggjur af faraldrinum. Aftur á móti vill fólk með meiri menntun vægari aðgerðir og það á einnig við um þá sem eru á vinnumarkaði og þá sem styðja ríkisstjórnina. Ekki er teljandi munur á viðhorfum fólks eftir búsetu.

Könnunin var gerð dagana 13. til 30. ágúst og má sjá nokkurn mun á svörum eftir dögum. Til dæmis fjölgaði þeim sem voru ósáttir við aðgerðir á landamærunum dagana eftir að þær voru hertar 19. ágúst, en þeim hefur síðan fækkað. Þá hækkar hlutfall þeirra jafnt og þétt sem eru sáttir við aðgerðir innanlands.