Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Einn æðsti böðull Rauðu Kmeranna er allur

02.09.2020 - 03:36
epa08640424 (FILE) - Kaing Guek Eav alias 'Duch' (C), former Chief of the S-21 prison stands in the court room at the Extraordinary Chambers in the Courts of Cambodia (ECCC), in Phnom Penh, Cambodia, 05 December 2008 (reissued 02 September 2020). According to media reports on 02 September 2020, former S-21 prison chief Kaing Guek Eav, alias 'Duch', died at the age of 77. He was convicted of crimes against humanity in 2010 for his role in the Cambodian genocide, perpetrated by the Khmer Rouge regime from 1975 to 1979.  EPA-EFE/MAK REMISSA
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Einn æðsti böðull Rauðu Kmeranna í Kambódíu er allur, 77 ára að aldri. Kaing Guek Eav, betur þekktur sem Duch dó á sjúkrahúsi en hann hafði verið veikur um árabil.

Duch er talinn bera ábyrgð á dauða um fimmtán þúsund en nærri tvær milljónir týndu lífi á tímum ógnarstjórnar Pol Pots á árunum 1975 til 1979.

Kaing Guek Eav stjórnaði hinu alræmda Tuol Sleng fangelsi en glæpadómstóll á vegum Sameinuðu þjóðanna dæmdi hann sekan um fjöldamorð og glæpi gegn mannkyni árið 2010.

Í fangelsi sínu hafði þessi fyrrverandi stærðfræðikennari yfirumsjón með því að pynta þúsundir karla, kvenna og barna. Með því náði hann fram fölskum játningum sem leiddu til aftöku fjölda fólks.

Kaing Guek Eav hélt stöðu sinni innan Kommúnistaflokks Kambódíu um hríð eftir fall Pol Pots en hafði komið sér fyrir undir fölsku nafni í vesturhluta landsins þegar hann var handtekinn 1999.

Þá starfaði hann fyrir líknarsamtök og kvaðst hafa snúist til kristni. Hann var þá talinn löngu látinn.

Kaing Guek Eav eða Duch var sá fyrsti úr röðum Kmeranna sem dæmdur var fyrir glæpi þá sem framdir voru á valdatíð þeirra. Hann baðst afsökunar á ódæðum sínum en olli síðar óhug með því að krefjast sýknu.

Hann ætti ekki skilið, sagði hann, að sitja í fangelsi því hann hefði verið valdalítill og aðeins hlýtt skipunum að ofan.

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV