Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Bóluefnishópur skoðar færar leiðir fyrir Ísland

epa08556527 (FILE) - One of the first South African vaccine trialists gets injected during the clinical trial for a potential vaccine against the Covid-19 Corona virus at the Baragwanath hospital in Soweto, South Africa, 24 June 2020 (reissued 20 July 2020). Early phases of testing for a coronavirus vaccine suggest a positive result in immune reaction, scientists at Oxford University said 20 July 2020.  EPA-EFE/SIPHIWE SIBEKO / POOL
 Mynd: EPA-EFE - Reuters
Vinnuhópur um kaup á bóluefni gegn COVID-19 hefur tekið til starfa og er nú að skoða hvaða leiðir eru færar í þessum efnum. Ákvarðanir um samninga og kaup á bóluefni við COVID-19 geta orðið óhefðbundnar vegna kórónuveirufaraldursins sem geisar í heiminum.

Ísland mun kaupa bóluefni á grundvelli samninga Evrópusambandsins við lyfjaframleiðendur og Svíþjóð mun hafa milligöngu um að framselja Íslendingum og Norðmönnum efnið. Íslenski vinnuhópurinn mun leita í smiðju Norðmanna um hvernig þessum samningum verður háttað. Þar stendur sambærileg vinna yfir.

Gert er ráð fyrir að Ísland þurfi um 550 þúsund skammta af bóluefni. Miðað er við að bólusetja um 75 prósent þjóðarinnar til að ná fullnægjandi hjarðónæmi. Hver einstaklingur verður bólusettur tvisvar.

Heilbrigðisráðherra skipaði vinnuhópinn 26. ágúst. Í honum sitja fulltrúar heilbrigðisráðuneytisins, fulltrúi sóttvarnalæknis, fulltrúi sóttvarnaráðs, fulltrúi Landspítala og fulltrúi Lyfjastofnunar.

Samkvæmt sóttvarnalögum ber embætti landlæknis ábyrgð á framkvæmd bólusetninga hér á landi. Bóluefni vegna almennra bólusetninga eins og til dæmis gegn árstíðabundinni inflúensu er útvegað  með útboðum og samningum. Núgildandi samningar Íslands um bóluefni gilda ekki um bóluefni gegn COVID-19 og þess vegna hefur þurft að gera sérstakar ráðstafanir.

Í tilkynningu frá heilbrigðisráðuneytinu segir að ákvörðun um samninga og kaup á bóluefni við COVID-19 geti orðið frábrugðið hefðbundnu ferli við kaup á bóluefni.

Vinnuhópinn skipa:

  • Áslaug Einarsdóttir, fulltrúi heilbrigðisráðuneytisins, formaður vinnuhópsins
  • Bjarni Sigurðsson, fulltrúi heilbrigðisráðuneytisins
  • Valtýr St. Thors, fulltrúi sóttvarnalæknis
  • Ólafur Guðlaugsson, fulltrúi sóttvarnaráðs
  • Hulda Harðardóttir, fulltrúi Landspítala
  • Sindri Kristjánsson, fulltrúi Lyfjastofnunar