Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Bændur óttast um fé á fjalli ef spáin rætist

02.09.2020 - 13:19
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Sauðfjárbændur á norðanverðu landinu, sem eiga fé á hálendi, ætla að flýta göngum og þeir sem þegar eru komnir á fjall reyna að ná fé sínu niður sem fyrst. Á morgun spáir vonskuveðri á stærstum hluta landsins.

Í viðvörun Veðurstofunnar er spáð norðan eða norðvestan hvassviðri eða stormi og talsverðri úrkomu. Hiti verður nálægt frostmarki og annað kvöld gæti orðið slydda ofan 300 metra og snjókoma ofan 500 metra. Þá er líklegt að færð spillist á fjallvegum.

Orðnir of seinir til að smala öllu fénu

Alls staðar á þessu svæði er sauðfé enn á fjalli og bændur hafa af því áhyggjur. Sæþór Gunnsteinsson, formaður Félags sauðfjárbænda í Suður Þingeyjarsýslu, segir þá ætla að flýta göngum sem áttu að hefjast eftir viku, en tíminn sé knappur. „Við eru mssennilega fallnir á tíma, það er svartaþoka í afréttinum í dag og lítið hægt að gera í dag. En við erum að hugsa um það að fara í fyrramálið og gera eitthvað. En það er náttúrulega alveg ljóst að við komumst ekki yfir afréttinn fyrir þetta veður. Það er því miður þannig. Tíminn er of knappur fyrir okkur.“

Mestar áhyggjur að það snjói á féð

En þeir ætli að reyna að komast á þau svæði sem liggja hæst og ýta fénu neðar. „Í 4-600 metra hæð yfir sjó þá skiptir þessi ein eða tvær gráður ofboðslega miklu, hvort þetta fellur sem slydda eða regn eða þá snjór. Það er það sem við höfum nú mestar áhyggjur af,“ segir Sæþór.

Húnvetningar í göngum vilja ná fénu niður sem fyrst

Gangnamenn í Austur-Húnavatnssýslu eru í göngum á Haukagilsheiði og Grímstunguheiði en þeir smala alla leið upp undir Langjökul. Þeir voru í skála í morgun og þá var svartaþoka sem setur strik í reikninginn. Þeir leggja allt kapp á að ná fénu niður áður en veðrið brestur á og vilja forðast það að lenda í vondu veðri og snjókomu. Við þannig aðstæður verði mun erfiðara að eiga við féð.

Bændur sem eiga fé neðar eru rólegri

Bændur sem eiga fé í lægra fjalllendi eru ekki eins áhyggjufullir. Þannig segir Þórarinn Pétursson, bóndi á Grund í Grýtubakkahreppi, að bændur á því svæði séu rólegir. Þeirra afréttur er í Fjörðum og hann á ekki von á að þeirra kindur verði í neinni hættu, gangi veðurspáin eftir.