Aflýsa fjölda flugferða til og frá landinu

02.09.2020 - 08:28
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Grímur Jón Sigurðsson - RÚV
Stórum hluta flugferða sem fyrirhugaðar voru til og frá landinu í dag og á morgun hefur verið aflýst. Ásdís Ýr Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair, segir að nú vinni félagið að því að laga framboð að eftirspurn.

7 af 16 auglýstum brottförum frá Keflavíkurflugvelli í dag hefur verið aflýst og 7 af 15 komuferðum. Það sama er uppi á teningnum á morgun; 6 af 17 komuferðum hefur verið aflýst og 6 af 16 brottförum. Langflestar þeirra flugferða sem hefur verið aflýst eru á vegum Icelandair.

Á föstudaginn hefur engum flugum enn verið aflýst enda segir Ásdís Ýr í samtali við fréttastofu að ákvarðanir um flugframboð séu gjarnan teknar með litlum fyrirvara vegna þess hversu hratt eftirspurnin sveiflast. „Við erum búin að vera að gera þetta síðan í mars, að aðlaga framboðið að eftirspurninni,“ segir hún. Staðan sé metin nokkra daga fram í tímann og það gangi vel að halda sveigjanleika í framboði.

Aðspurð segir hún að sem fyrr hafi farþegar þrjá valkosti þegar flugferðum er aflýst; þeir geti fundið nýja dagsetningu, fengið inneign eða fengið endurgreiðslu. Hingað til hafi meirihluti farþega kosið að fá inneign eða fært flug og um það bil þriðjungur óskað eftir endurgreiðslu. 

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi