32 ferðaskrifstofur sóttu um lán í ferðaábyrgðasjóð

Mynd með færslu
 Mynd: Ásrún Brynja Ingvarsdóttir - RÚV
Alls sóttu 32 ferðaskrifstofur um lán í ferðaábyrgðasjóð áður en frestur til þess rann út um mánaðamótin. Fimm þeirra hafa verið afgreiddar.

Á vefsíðu Ferðamálastofu kemur fram að alls hafi verið samþykkt lánveiting úr ferðaábyrgðarsjóði upp á tæplega 500 milljónir króna. Ekki er tekið fram hvernig upphæðin skiptist. 

Tólf umsóknir eru í vinnslu og fimmtán umsóknir bíða afgreiðslu. Alls var sótt um rúmlega 2,3 milljarða króna lán.  

Á meðal afgreiddra umsókna um lán úr ferðatryggingasjóði er umsókn frá ferðaskrifstofunni Tripical. Hún komst í fréttirnar í sumar þegar ekkert varð af útskriftarferð Menntaskólans á Akureyri til Ítalíu vegna heimsfaraldursins og útskriftarnemum boðin ferð til Hellu í staðinn. Forsvarsmenn fyrirtækisins sögðu að erfitt yrði að endurgreiða öllum niðurfelldar ferðir án aðstoðar. 

Ferðaábyrgðasjóður var stofnaður tímabundið til þess að bregðast við lausafjárvanda ferðaskrifstofa í slíkum vanda. Þær sem ekki hafi séð fram á að geta endurgreitt viðskiptavinum sínum pakkaferðir sem ekki voru farnar vegna kórónuveirufaraldursins. Lánin ná til endurgreiðslu ferða sem átti að fara frá 12. mars til 31. júlí.  

Á dagskrá Alþingis í dag er frumvarp um að framlengja umsóknarfrest um lán úr sjóðnum fram til 1. nóvember og að lánað verði til endurgreiðslu ferða sem felldar voru niður fram til 30. september.

Helena Þ. Karlsdóttir forstöðumaður hjá Ferðamálastofum segir að verði niðurstaðan að framlengja frestinn kunni að koma fram umsóknir vegna ferða sem felldar hafi verið niður í ágúst og september.

Hún segir ómögulegt að segja til um hversu langan tíma taki að afgreiða umsóknir um lán. Ferðamálastofa þurfi að óbreyttu að klára afgreiðslu umsókna fyrir 31. desember. 
 

 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi