Tolli, sem er viðmælandi Með okkar augum, segir að það hafi alltaf legið fyrir sér að verða listamaður. „Ef hægt er að tala um örlög var þetta mér ætlað. En ég þráaðist við, ég ætlaði að verða eitthvað annað,“ segir Tolli sem var um tíma í rokkhljómsveitinni Íkaros. „Ég kom einu sinni fram í Laugardalshöll fyrir framan 5000 manns og hætti á toppnum.“ Hann segist hafa verið búinn að prófa flest annað þegar hann sneri sér að málverkinu, „og hef ekkert snúið frá því síðan“.
Hugleiðsla hefur verið Tolla hugleikin um langa hríð og hann hefur iðkað hana í 15 ár. „Það kemur til aftur að þessu sem ég talaði um áðan, það er leitin að Tolla.“ Hann segir hugleiðslu geta hjálpað fólki að finna sjálft sig og telur alla eiga að prófa hana. „Þegar ég er að leita að Tolla sæki ég mjög mikið í náttúruna. Hún hefur eiginlega svör við öllu sem við spyrjum að.“ Tolli segist trúa á hið góða í fólki. „Það skiptir öllu máli. Það góða býr inni í okkur og ef við höfum það með í dagsins önn þá farnast okkur vel.“ En af hverju skyldi hann vera stoltastur? „Ég er stoltastur af því að hafa ekki gefist upp við þetta. Haldið áfram og staðið með sjálfum mér í því að vera myndlistarmaður.“
Rætt er við Tolla í fjórða þætti af Með okkar augum sem er á dagskrá RÚV annað kvöld klukkan 20:00. Hægt er að horfa á eldri þætti í spilara RÚV.