„Spjarasafnið“ hugsað eins og Airbnb fyrir fatnað

Mynd: Hulda Geirsdóttir / Hulda Geirsdóttir

„Spjarasafnið“ hugsað eins og Airbnb fyrir fatnað

01.09.2020 - 12:50
Hugmyndasmiðja Umhverfisstofnunnar, Spjaraþonið, fór fram um síðastliðna helgi þar sem leitast var eftir lausnum við textílvandanum. Sigurhugmyndin kallaðist „Spjarasafnið“ og er hugsað sem eins konar Airbnb leiga fyrir fatnað.

Þorbjörg Sandra Bakke, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun, var gestur í Morgunútvarpinu á Rás 2 og ræddi hugmyndasmiðjuna, Spjaraþonið og hinn svokallaða textílvanda.

Við framleiðslu á textíl þarf mikið af auðlindum, mikið vatn og efnið sjálft, oft eru svo einnig notuð eiturefni sem hafi mikil umhverfisáhrif. „Svo höfum við verið að margfalda kaup okkar á fötum en bara síðan 2000 hefur heimsframleiðsla á textíl tvöfaldast og hér á landi höfum við verið að auka kaup verulega, við sjáum það bara á sorpinu, þetta eru um 20 kíló sem fólk losar sig við árlega hér á landi,“ segir Þorbjörg. 

Saman gegn sóun er stefna umhverfis- og auðlindaráðherra um úrgangsforvarnir og Spjaraþonið er hluti af því verkefni en textíll er einn af níu áhersluflokkum sem eru í brennidepli í verkefninu. Eftir tveggja daga hugmyndavinnu í Spjaraþoninu var hugmyndin „Spjarasafnið“ valin best. Það voru Ásgerður Heimisdóttir, Dagný Guðmundsdóttir, Kristín Edda Óskarsdóttir, Patricia Anna Thormar og Sigríður Guðjónsdóttir sem skipuðu sigurteymið. 

Spjarasafnið er stafræn miðlun þar sem notendur geta sett í leigu eða leigt fatnað. „Þetta er í raun svolítið eins og Airbnb nema fyrir föt,“ segir Þorbjörg. Hugmyndasmiðirnir vilja byrja á því að koma fram með tól til að leigja lúxusfatnað, fyrir árshátíðir og brúðkaup svo dæmi séu tekin og vilja svo stækka hugmyndina fyrir fleiri tilefni. Þorbjörg segir það hafa verið gaman að fylgjast með því hvað fólk komst langt með hugmyndirnar, hún hafi ekki endilega átt von á því. „Ég var bara gáttuð á því hvað þetta voru margar hugmyndir og vel þróaðar eftir bara sólahringsvinnu saman.“

Tengt verkefninu Saman gegn sóun hefur Umhverfisstofnun einnig hafið verkefni á samfélagsmiðlum með myllumerkinu #notadernytt þar sem þau hvetja fólk til að taka mynd af sér í sinni uppáhalds flík, einhverju sem það hefur átt lengi, hvort sem það er flík frá ömmu gömlu eða eitthvað sem það keypti fyrir 15 árum. „Við viljum hvetja fólk til að sjá verðmætin í fatnaðinum sem það á og gera notaðar flíkur að einhverju eftirsóknarverðu,“ segir Þorbjörg.

Nú þegar hafa nokkrir birt myndir af sér í sínum uppáhalds flíkum, til að mynda Stefán Jakobsson, söngvari hljómsveitarinnar Dimmu, og Elma Lísa Gunnarsdóttir, leikkona. 

 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 

#notaðernýtt #NotadErNytt #notaðernýtt

A post shared by Elma Gunnarsdóttir (@elmalisagunn) on

Viðtalið við Þorbjörgu Söndru í Morgunútvarpinu má heyra í spilrarnum hér fyrir ofan. 

Tengdar fréttir

Leita að lausnum við textílvandanum með spjaraþoni

Hönnun

Miklir möguleikar í textíl