Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Sameinaður skóli Strandabyggðar hefur störf

01.09.2020 - 12:45
Mynd með færslu
 Mynd: Lisa Fotios - Pexels
Fyrsta starfsár sameinaðs leik-, grunn- og tónskóla er nú að hefjast í Strandabyggð. Skólinn er stærsti vinnustaður í sveitarfélaginu. Nemendur segjast taka eftir smávægilegum breytingum.

Hrafnhildur Guðbjörnsdóttir skólastjóri segir að sameiningin hafi verið lengi í farvatninu. Með þessu móti megi nýta mannauð skólanna betur.

„Svo er auðvitað líka að brúa bilið á milli leikskólans og grunnskólans, eða gera það þannig að það sé ekkert bil heldur bara hægt að ganga á milli,“ segir hún.

Elstu börnin í leikskólanum fari yfir á grunnskólastigið nokkra tíma í viku og börn í fyrsta bekk fara í leikskólann á móti.

„Þá verður þetta svo auðvelt í haust þegar þau byrja. Þau þekkja allt, bæði starfsfólk og aðra nemendur.“

Nemendafjöldi hefur staðið í stað síðustu ár

25 nemendur eru á leikskólastigi og 45 á grunnskólastigi. Hrafnhildur segir að börnum hafi farið fækkandi í Strandabyggð eftir aldamót en fjöldinn hafi staðið í stað síðustu ár. Skólastarfið er í tveimur byggingum og um þrjátíu manns starfa við hinn nýja sameinaða skóla sem er jafnframt stærsti vinnustaður í sveitarfélaginu.

„En þetta gengur afskaplega vel. Auðvitað bara öflugt og jákvætt starfsfólk sem stendur í því að láta allt ganga vel fyrir sig,“ segir Hrafnhildur.

Álfrún Áslaug Steinunnardóttir, sem er í öðrum bekk, segist taka eftir breytingum í skólanum.

„Núna stundum þegar maður er í tónlist, þá bíður maður á mottunni niðri.“