Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Sá ekki fyrir sér í æsku að komast í atvinnumennsku

Mynd: Sara Björk Gunnarsdóttir / Instagram

Sá ekki fyrir sér í æsku að komast í atvinnumennsku

01.09.2020 - 21:53
Sara Björk Gunnarsdóttir, fyrirliði Íslenska landsliðsins í fótbolta, vann einstakt afrek í íslenskri íþróttasögu í fyrrakvöld þegar hún varð Evrópumeistari með félagsliði sínu, Lyon. Í æsku gat hún ekki ímyndað sér að einn daginn yrði hún atvinnukona í fótbolta.

Rætt var við Söru Björk í Kastljósi kvöldsins. Hún var spurð um skilaboð til krakka sem vilja ná langt í fótbolta. „Það er svo skrítið þegar maður var yngri, þegar ég var lítil þá gat ég aldrei hugsað mér að vera atvinnukona í fótbolta og ég var bara með plaköt af strákum uppi á vegg og gat ekki hugsað mér: er ég að fara að verða atvinnukona? Ég sá það ekki fyrir mér,“ sagði Sara Björk í viðtalinu. 

Í dag eru möguleikarnir mun fleiri. „Í dag eru ótrúlega margir möguleikar fyrir stelpur að fara út og spila og það eru margar deildir sem eru sterkar í dag og miklir möguleikar fyrir þessar stelpur að fara, en bara að sjá þessa möguleika og gera allt sem þær geta til þess að komast út ef þær vilja verða atvinnukonur en þær þurfa að leggja ótrúlega hart að sér,“ segir hún.

Sara Björk segir að leiðin að árangri sé alls ekki létt, leggja þurfi mikið á sig og það sé eitthvað sem ekki allir sjái. „Þetta er ótrúlega erfitt en þess virði ef maður er viljugur að leggja hart að sér.“

Hér má sjá Kastljósþáttinn í heild sinni. 

Tengdar fréttir

Fótbolti

Sara Björk: frá Haukum til Evrópumeistaratitils

Fótbolti

Með „brjálaðan metnað“ innan vallar en trúður utan hans

Fótbolti

Sara Björk tryggði Lyon sigur í úrslitaleiknum