Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Óeðlilegt að beita starfsfólki ef sækja á fé til ríkis

Mynd með færslu
 Mynd: Samsett mynd
Bæjarráð Vestmannaeyja fundar nú í hádeginu um stöðu Herjólfs eftir að öllum starfsmönnum fyrirtækisins, 68 manns, var sagt upp í gær. Stjórn Herjólfs telur að ekki hafi verið staðið fyllilega við gerðan þjónustusamning við ríkið og sér fram á 400 milljóna króna halla á rekstri félagsins á árinu. Samgönguráðherra segir að félaginu hafi þegar hafi verið veittur einhver fjárstuðningur og segir samtal hafið um að leysa ágreiningsmál um þjónustusamning.

Annars vegar snúa meintar vanefndir að því hvaða tímabili vísitölutengdar greiðslur frá ríki ná til og einnig greinir á um aukna mönnunarþörf sem er kveðið á um á skipinu. Hins vegar sé þörf á mótframlagi vegna tekjutaps af völdum veirufaraldursins.

Komast ekki í gegnum þetta ein og óstudd 

Guðbjartur Ellert Jónsson, framkvæmdastjóri Herjólfs, sagði í samtali við fréttastofu í gær að ekki væri unnt að standa undir rekstri Herjólfs ohf. að óbreyttu án mótframlags.

„Við sjáum fram á það að þær sértekjur sem við höfum, það hefur höggvið svolítið mikið í þær þannig að við erum ekki að komast í gegnum þetta ein og óstudd,“ sagði Guðbjartur Ellert. „Þar sem þetta er eina þjóðleiðin milli lands og Eyja þá þarf að koma eitthvað til.“

Erfitt að aðlaga þjónustusamninginn að þjónustustiginu

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, sagði aðspurður um ágreiningsmál um þjónustusamninginn, fjárframlög samþykkt af Alþingi hafa farið til Herjólfs vegna COVID, það sé hins vegar innan við einn fjórði af þeim 400 milljóna halla sem Herjólfur áætlar á árinu. 

„Þau tvö atriði sem standa síðan út af í þjónustusamningi, það er að segja mönnunin og upphaf vísitölutímabils, það er bara samtal sem er í gangi og verður leyst úr því,“ sagði Sigurður Ingi eftir ríkisstjórnarfund í dag. Hann segir Herjólf í erfiðri stöðu. „Ég geri mér grein fyrir því að þeir þurfa að aðlaga reksturinn að þeim fjárframlögum sem þjónustusamningurinn er og því þjónustustigi sem þeir vilja vera á.“

Mynd með færslu
 Mynd: Hjalti Haraldsson - RÚV

Óeðlilegt að beita starfsfólki ef sækja á aukið fé til ríkisins

Viðræðum milli Herjólfs og Sjómannafélags Íslands fyrir hönd meirihluta háseta og þerna á Herjólfi var frestað fram í lok september þar til betur lægi fyrir hvernig rekstri félagsins yrði hagað. Þeir yrðu að sækja um aukið fé til ríkisins þannig að það var ákveðið af báðum aðilum að fresta viðræðum, en eigi síðar en fram í lok september, sagði Bergur Þorkelsson, formaður Sjómannafélags Íslands.

Hann sagði uppsagnirnar í sjálfu sér ekki koma á óvart.  „En það er óeðlilegt kannski að beita starfsfólki fyrir sig ef menn ætla að sækja aukið fé til ríkisins, ef það er gert í þeim tilgangi,“ sagði Bergur.

„Ég tel að þetta sé löglegt. Að segja fólki upp ef það er verið að leggja niður reksturinn, það er ekkert óeðlilegt,“ sagði hann í samtali við fréttastofu.