Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Minni inn- og útflutningur og sjö milljarða afgangur

Mynd með færslu
 Mynd: Eimskip
Sjö milljarða afgangur var á viðskiptajöfnuði við útlönd á öðrum ársfjórðungi, samanborið við 16,7 milljarða afgang ársfjórðunginn á undan. Þetta kemur fram í nýjum tölum frá Seðlabanka Íslands. Þar segir ennfremur að afgangurinn hafi verið rúmlega níu milljörðum minni en á sama ársfjórðungi í fyrra.

Í frétt á vef Seðlabankans segir að þessi munur á milli ára skýrist aðallega af því að þjónustuviðskipti voru óhagstæðari um sem nemur rúmum 48 milljörðum króna. Þar munar mest um lægra verðmæti útfluttrar þjónustu, eða sem nemur 99 milljörðum króna, að því er fram kemur í frétt Seðlabankans. Á móti komi að innflutt þjónusta hafi minnkað um rúma 50 milljarða króna. Þá voru vöruskipti hagstæðari um sem nemur rúmum 34 milljörðum.

„Það skýrist að mestu af 47,9 ma.kr. minni innflutningi miðað við árið á undan en útflutningur var 13,6 ma.kr. minni,“ segir í frétt Seðlabankans.

Þá kemur fram í fréttinni að hrein staða við útlönd hafi verið jákvæð um 838 milljarða króna, og að hún hafi batnað um 143 milljarða á fjórðungnum. 

„Erlendar eignir þjóðarbúsins námu 4.475 ma.kr. í lok ársfjórðungsins en skuldir 3.636 ma.kr. Hrein fjármagnsviðskipti bættu erlenda stöðu þjóðarbúsins um 22 ma.kr. á fjórðungnum en erlendar eignir jukust um 83 ma.kr. vegna fjármagnsviðskipta og skuldir um 61 ma.kr. Virði eigna og skulda jókst nokkuð vegna gengis- og verðbreytinga á ársfjórðungnum, en í heildina leiddu þær til 137 ma.kr. hækkunar á hreinni erlendri stöðu þjóðarbúsins,“ segir í fréttinni.

 

johann's picture
Jóhann Bjarni Kolbeinsson
Fréttastofa RÚV