Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Íbúar stofna hóp um öryggi við Eyvindará

01.09.2020 - 10:02
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Íbúar á Fljótsdalshéraði óttast að alvarlegt slys verði við Eyvindará þar sem vinsælt er að stökkva af gamalli brú. Straumur hefur ítrekað hrifsað börn niður í flúðir í ánni. Stofnaður hefur verið hópur til að bæta öryggisbúnað á staðnum en þar er aðeins eitt flotbelti.

Eftir að tvær stúlkur lentu í vanda fyrr í mánuðinum kallaði varaformaður Björgunarsveitarinnar Héraðs eftir auknum útbúnaði og leiðbeiningaskiltum. Hann skoraði á vegagerðina sem á brúna og sveitarfélagið að fjölga flotbeltum og bjarghringjum og setja upp leiðbeiningar um hvað skuli varast. Eftir að fréttin birtist stofnaði Sigrún Jóna Hauksdóttir Facebook-hópurinn nefnist: Áhugafólk um öryggi við Eyvindará.

Fleiri lentu í vanda 14. ágúst

Hún segir að fyrr sama dag og tvær stúlkur lentu í vanda fyrr í mánuðinum hafi orðið annað atvik í ánni sem ekki komst í hámæli. 17 ára stúlka stökk til að hjálpa annarri yngri en lenti sjálf í vanda. „Straumurinn hrifsar hana og það þurfti bara brú af mönnum út í ánna til þessa að fiska hana upp, sem tókst. Þetta var fíleflt fólk en það var mjög erfitt að ná henni til baka og seinna þennan sama dag gerist þetta atvik með þessar stúlkur sem landa svo í vandræðum.“

Sveitarfélagið varaði við hættu eftir atvik í júlí  2018

Fyrir tveimur árum lenti ungur drengur í vanda í ánni og þá hvatti Fljótadalshérað íbúa í bréfi til að vara börn við hættum við Eyvindará. Þar kom fram að bjarghringir hefðu ítrekað horfið og það hafi verið gefist upp á að endurnýja þá. Svokallað björgvinsbelti var þá sett upp í staðinn. „Þetta hefur maður fengið að heyra í gegnum árin að það þýði ekkert að setja uppöryggisbúnað því hann hverfur alltaf. Ég held líka bara að um leið og þetta er komið til okkar í nærsamfélaginu þá trúi ég að þetta fái að vera í friði og ef þetta fer þá bara setjum við þetta upp aftur. Þetta eru ekki stórar fjárhæðir,“ segir Sigrún Jóna.

Gestir þekkja ekki hætturnar

Ekki er langt síðan tíundu bekkinga í Egilsstaðaskóla unnu verkefni um bætt öryggi við Eyvindará og samkvæmt upplýsingum frá Fljótsdalshéraði vill sveitarfélagið leggja fé í úrbætur. Sigrún sér fyrir sér að hópurinn taki sig saman um að setja upp búnað og skilti með leiðbeiningum og jafnvel mætti ráða fólki frá því að stökkva fari vatn yfir mörk á vatnshæðarmæli. Þá mætti sýna hvar er hægt að stökkva í ána og hvar ekki.

„Þótt að við sem búum hérna kannski þekkjum hætturnar þarna þá eru margir gestir sem koma til okkar og við viljum ekki að þarna verði alvarlegt slys,“ segir Sigrún Jóna Hauksdóttir stofnandi Facebook-hópsins: Áhugafólk um öryggi við Eyvindará.