Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Fær að flytja inn milljón „væskilslega“ maðka

01.09.2020 - 08:47
Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia/Holger Casselman - RÚV
Umhverfisstofnun hefur veitt fyrirtækinu GeoTækni ehf á Selfossi leyfi til að flytja inn milljón ánamaðka, svokallaða haugána. Nota á maðkana í eftirvinnslu á moltu til að breyta henni í lífrænan áburð. Náttúrufræðistofnun segir að maðkurinn sé tiltölulega sjaldgæfur hér á landi og lýsir honum sem væskilslegum.

Fram kemur í umsögn Umhverfisstofnunar að fyrirtækið hafi látið gera áhættumat vegna maðkanna. Niðurstaðan hafi verið sú að ólíklegt væri að tegundin geti haft í för með sér neikvæð áhrif á vistkerfið. 

Sérfræðinganefnd um framandi lífverur komst að sömu niðurstöðu. Ekki væri mikil hætta á því að innflutningurinn myndi ógna villtum vistkerfum á Íslandi. 

Fyrirhugað er að moltugerðin fari fram í upphituðu húsnæði með steyptum gólfum. Umhverfisstofnun telur því litlar líkur á slysasleppingum miðað við þá afmörkun sem fyrirtækið setur eldinu.

Á vef Náttúrufræðistofnunar Íslands kemur fram að þessi tegund ánamaðka sé sjaldgæf hér á landi.  Hann hafi þó fundist í salernisskálum í híbýlum á höfuðborgarsvæðinu.  Þá fundust haugánar á tveimur stöðum á Mýrum í Borgarfirði í súru mýrlendi þar sem voru sinueldar. 

Náttúrufræðistofnun segir maðkana vera væskilslega, föla og tiltölulega gegnsæja. Þeir þrífist vel við lágt sýrustig og hafi náð að skríða upp í klósett sem sé vísbending um að lagnir séu farnar að gefa sig. „Stundum hafa slíkir ormar valdið tilhæfulausum áhyggjum finnenda af heilsufari sínu.“

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV