Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ernir hættir að fljúga til Eyja og Herjólfur í óvissu

Mynd: Birgir Þór Harðarson / RÚV
Samgöngumál Vestmannaeyinga eru í mikill óvissu. Síðdegis í dag tilkynnti flugfélagið Ernir að félagið ætli að hætta áætlunarflugi til Eyja og í gær var öllum 68 starfsmönnum Herjólfs sagt upp. Ágreiningur er um rekstrarsamning við ríkið. Samgönguráðherra vonast til að leyst verði úr deilunni á næstu dögum.

Helstu orsakir þess að flugfélagið tekur þessa ákvörðun er lítil eftirspurn og aðstæður í þjóðfélaginu. Því séu ekki forsendur til að halda inn í veturinn. Vonast er til að hægt verði að hefja flug á ný sem fyrst. Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum segir stöðuna óviðundandi.

„Það er grafalvarlegt ef flugsamgöngur, áætlunarflug leggst af til Vestmannaeyja. Það er staða sem við getum ekki unað og við munum þurfa að taka á því.“ segir Íris.

Telja ríkið ekki hafa staðið við sinn hluta

Stjórn Herjólfs gerir ráð fyrir 400 milljóna króna halla á rekstri ársins. Stjórnin telur óábyrgt að halda út í frekari óvissu með rekstur félagsins að öllu óbreyttu. Bæjarráð Vestmannaeyja fundaði um málefni Herjólfs í dag og þar kom fram að Vestmannaeyjabær teldi ríkið ekki standa við þær greiðslur sem kveðið væri á um í þjónustusamningi. Framlög til félagsins væru um 200 milljón krónum lægri en umræddur samningur segði til um.

„Við viljum tryggja það að ferðatíðnin haldist. Eins og er þá hefur þetta ekki áhrif á samgöngurnar, það eru bara eðlilegar samgöngur með skipinu. En auðvitað er það stóra málið að við getum ekki hugsað okkur að ferðatíðnin fari eitthvað til baka. Verði ekki eins og hún er í dag sem eru þessar sex ferðir. Við teljum að það sé lágmark til að það sé hægt að þjónusta þetta samfélag og ykkur  landsmenn alla sem vilja heimsækja okkur. “ segir Íris.

Vonast eftir skjótum svörum

Hún segir uppsagnirnar í gær hafa verið sársaukafullar og vonast til að þær komi ekki til framkvæmda. Eyjamenn segja ríkið ekki hafa staðið við sinn hluta rekstrarsamningsins. 

„Við erum með þjónustusamning við ríkið um reksturinn á þessari leið. Og það eru ákveðnir þættir þjónustusamningsins sem við teljum ríkið ekki vera að efna, og við erum í samtali við ríkið um það, og erum að bíða og vonumst til að fá svör mjög fljótt hvort að þeir ætli ekki örugglega að efna samninginn,“ segir Íris.

Verður skoðað á næstu dögum

Samgönguráðherra segist gera sér grein fyrir erfiðri stöðu Herjólfs og að félagið þurfi að aðlaga reksturinn að þeim fjárframlögum sem kveðið er á um í samningnum. 

Telur þú að það þurfi að breyta rekstrarfyrirkomulagi Herjólfs? 

„Vonandi geta þeir bara unnið úr þessu. Þetta var náttúrulega sérstakt fyrirkomulag að gera samning við heimaaðila, sveitarfélagið, um þennan rekstur, en að bjóða hann ekki út og vonandi gengur það eftir hjá þeim, og ég hef fulla trú að þau séu að vinna að því með þessum hætti.“ segir Sigurður.

Hann telur að í samningnum séu ákvæði um öryggismönnun sem ekki hafi legið fyrir þegar hann var undirritaður. Því þurfi að leysa úr.

„Það eru þarna tvö ákvæði ávörpuð í samningnum, það er að segja um mönnunina og það er úrlausnarefni sem við finnum út úr.“

Hvenær gerið þið það?

Bara á næstu dögum“ segir Sigurður Ingi.