Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

„Við erum að veðja á að þetta sé tímabundið ástand“

Mynd: Freyr Arnarson / RÚV
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir að ríkisstjórnin gangi út frá því að ástandið í efnahagsmálum sé tímabundið og svo taki hagvöxtur aftur við sér. Ef svo sé ekki standi stjórnvöld frammi fyrir miklum vanda og þurfi að laga sig að breyttum veruleika. Rætt var við fjármálaráðherra í beinni útsendingu í sjónvarpsfréttum.

Landsframleiðsla dróst saman um 9,3 prósent á öðrum ársfjórðungi miðað við sama tíma í fyrra. Samdrátturinn er sá mesti sem mælst hefur á einum ársfjórðungi frá því að ársfjórðungsmælingar voru teknar upp af Hagstofunni.  

Bjarni segir að þetta sé mikið högg en viðbúið. Frá því í vor hafi verið gert ráð fyrir miklum samdrætti á öðrum ársfjórðungi. Staðan sé þó ívið skárri en gert hafi verið ráð fyrir í vor. „Það munar um 40 milljörðum á því hverju menn spá nú um landsframleiðslu út árið, þannig að þetta eru ekki alslæm tíðindi.“ 

Úrræði til staðar fyrir þá sem þurfi á þeim að halda

Aðgerðir ríkisstjórnarinnar hafa kostað minna en gert hafi verið ráð fyrir. Kemur til greina að færa þessa fjármuni eitthvað til?  Bjarni segir að fyrirgreiðsluúrræði hafi ekki verið gjaldfærð,  „Þannig að það mun ekki bæta afkomu ríkissjóðs þó að ekki hafi reynt með sama hætti á sum úrræðanna. Aðalatriðið fyrir okkur er að úrræðin séu til staðar fyrir þá sem þurfa á þeim að halda. Það held ég að hafi svo sannarlega átt við í mörgum tilvikum,“ segir Bjarni. 

„Sums staðar höfum við kannski verið að opna fyrir úrræði sem nýttust ekki jafn vel og við gerðum ráð fyrir en það þýðir ekki að þau hafi ekki náð markmiði sínu. Kannski var bara þörfin með öðrum hætti en við gerðum ráð fyrir og það verður að horfa yfir heildarmyndina þegar menn eru að leggja mat á umfangið.“ 

Telur stefnuna hárrétta

Hversu lengi getur ríkið hlaupið undir bagga með landsmönnum? Bjarni segir að ríkisstjórnin sé fullviss um að stefna hennar sé hárrétt í dag. „Þetta er það sem við getum gert til þess að styðja við við þær aðstæður sem eru uppi núna. Við erum að veðja á að þetta sé tímabundið ástand og að við tökum við okkur þegar þetta ástand er frá og þá hefjist meira vaxtarskeið. Ef það bregst þá stöndum við frammi fyrir miklum vanda sem er sá að við verðum einfaldlega að laga okkur að breyttum veruleika.“

„En í augnablikinu held ég að það sé rétt að hafa trú á framtíðina, trú á það að við munum taka við okkur og vaxa út úr þessu ástandi og okkar aðgerðir miða að því að það sé það sem muni gerast.“ 

Telur betri tíð framundan hjá ferðaþjónustunni

Aðspurður hvort hann telji að þessi kreppa verði langvinnari en búist var við segir Bjarni að það verði að viðurkennast að vonast hafi verið til þess í vor að faraldurinn gengi yfir á þessu ári. „En nú hefur hann sýnt sig dragast á langinn. Ég held hinsvegar að þegar við lítum aðeins lengra fram í tímann að þá eigum við inni kraftmeiri vöxt en flestar spár geri ráð fyrir. Ég hef til dæmis ofboðslega mikla trú á ferðaþjónustunni inn í næstu ár og að þar geti orðið mjög mikill vöxtur þegar þetta ástand er frá.“