Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Veturinn gæti orðið erfiður

Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri. - Mynd: RÚV / RÚV
Komandi vetur gæti mögulega orðið erfiður efnahagslega en brugðist verður við samdrættinum af öllum mætti, segir Ásgeir Jónsson, Seðlabankastjóri. „Það verða vandamál sem bíða en ég trúi því að við getum leyst þau,“ sagði hann í viðtali í Kastljósi í kvöld.

Aðeins 6 prósent stjórnenda fyrirtækja sjá fram á að fjölga starfsfólki á næstunni og 38 prósent stjórnenda þurfa að segja fólki upp, samkvæmt könnun Gallup. Einar Þorsteinsson, þáttastjórnandi Kastljóss, spurði Ásgeir hvort þessar niðurstöður þýði að veturinn verði erfiður. „Mögulega gæti hann orðið það,“ sagði seðlabankastjóri og minnti á að betur hafi gengið efnahagslega í fyrstu bylgu faraldursins en spáð hafi verið. „Við eigum enn útspil eftir og við munum bregðast við þessum samdrætti og reyna hvað við megnum til þess að tryggja að þetta komi sem minnst niður á þjóðinni.“

Hagstofan gaf í dag út tölur um stöðu efnahagslífsins. Á öðrum ársfjórðungi mældist mesti samdráttur sem mælst hefur á Íslandi, eða 9,3 prósent. Það er örlítið minni samdráttur en Seðlabankinn gerði ráð fyrir á dögunum. Samdrátturinn í aðilarríkjum Evrópusambandsins var 11,7 prósent, í Bretlandi var hann 20 prósent, 18 prósent á Spáni og 13 prósent í Frakklandi. Ásgeir segir að samdrátturinn hér á landi komi ekki á óvart. „Þetta er í samræmi við þær spár sem við höfum lagt fram og voru taldar allt of bjartsýnar á sínum tíma,“ segir hann. 

Ásgeir segir að það sé tvennt sem skýri það að samdrátturinn hafi ekki verið meiri hér á landi. „Í fyrsta lagi, við erum eyja og okkur heppnaðist í rauninni að ná veirunni niður, tiltölulega snemma.“ Þá sé á Íslandi það sem kallað sé „mikið peningalegt svigrúm“. „Vextirnir voru það háir þegar þetta áfall hófst, þannig að við gátum lækkað vexti tiltölulega mikið og fengið tiltölulega mikla örvun í gegnum peningastefnuna og örvað einkaneyslu og fleira.“

Í Noregi var samdrátturinn aðeins 5 prósent, 4,5 prósent í Finnlandi og 7,5 prósent í Danmörku. Af hverju er staðan á Íslandi ekki nær því sem er í þessum þremur löndum? „Það skýrist að einhverju leyti af því hvað ferðaþjónustuan er stór partur af okkar efnahagslífi og tiltölulega stór grein og hún hvarf eiginlega á einni nóttu.“

Hægt er að hlusta á viðtalið í heild sinni að spilaranum hér fyrir ofan.