Sögulegt friðarsamkomulag í Súdan

31.08.2020 - 03:37
epa08252468 Sudanese Prime Minister, Dr. Abdullah Hamdouk (R) and German President Frank-Walter Steinmeier (L) talk to media after Steinmeier's arrival for a visit to Khartoum, Sudan, 27 February 2020. Steinmeier is on a two-day official visit to Sudan.  EPA-EFE/MARWAN ALI
Abdalla Hamdok, forsætisráðherra Súdans. Mynd: EPA-EFE - EPA
Byltingararmur Súdans, SRF, undirritaði í gær sögulegan friðarsamning við stjórnvöld, eftir 17 ára átök. Al Jazeera hefur þetta eftir ríkisfréttastofunni SUNA í Súdan. SRF er bandalag uppreisnarhreyfinga í Darfur í vestri og héraðanna Suður-Kordofan og Bláu Nílar í suðri.

Formleg undirritun samningsins verður í Juba í dag, höfuðborg Suður-Súdans. Tvær uppreisnarsveitir neituðu að taka þátt í samningaviðræðum, Frelsishreyfing Súdans og Þjóðfrelsishreyfing Súdans í norðri.

Að sögn Al Jazeera felur samkomulagið í sér mikilvæg atriði á borð við öryggi, landareign, valdaskiptingu og að fólk sem flúði heimili sín fái að fara aftur til síns heima. Þá er gert ráð fyrir því að uppreisnarsveitir verði leystar upp og hermenn þeirra gangi til liðs við stjórnarherinn.

Upphafið að friði

Abdalla Hamdok, forsætisráðherra Súdans, flaug til Juba í gær ásamt fleiri ráðherrum í stjórn hans. Hamdok sagði við blaðamenn að hann hafi bundið vonir við skjótar viðræður þegar þær hófust í september í fyrra. Þá bjóst hann við undirritun friðarsamnings tveimur til þremur mánuðum síðar. Svo hafi komið í ljós að ferlið var mun flóknara. Nú hafi tekist að komast að niðurstöðu, og þetta sé upphafið að friði í landinu.

Uppreisnarsveitir gripu til vopna gegn því sem þær sögðu efnahagslega og pólitíska misskiptinu í landinu. Uppreisnarmenn voru flestir úr röðum minnihlutahópa sem voru orðnir langþreyttir á yfirburðum Araba í ríkisstjórnum landsins.

Um 300 þúsund hafa fallið í átökum í Darfur síðan þau hófust þar árið 2003 að sögn Sameinuðu þjóðanna. Átök í Suður-Kordofan og Bláu Níl upphófust árið 2011, þar sem tekist var á um óútkljáð mál frá borgarastríðinu í Súdan frá 1983 til 2005.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi