Mústafa Adib, nýr forsætisráðherra Líbanons. Mynd: ASSOCIATED PRESS - AP
Tilkynnt var í Líbanon í morgun að Mustafa Adib, sendiherra landsins í Þýskalandi, yrði næsti forsætisráðherra. Hann heitir því að koma á fót nýrri umbótasinnaðri ríkisstjórn og leita til alþjóðasamfélagsins eftir efnhagslegum stuðningi.
Stjórnarkreppa hefur verið í Líbanon og helstu fylkingar gátu ekki komið sér saman um hvern ætti að skipa í embætti forsætisráðherra.
Það var ekki fyrr en í gær að Adib var nefndur sem mögulegur kandídat, en lagt var kapp á að skipa nýjan forsætisráðherra áður en Emmauel Macron, forseti Frakklands, kæmi til landsins, en hann er væntanlegur þangað í kvöld. Haft er eftir líbönskum embættismönnum að Macron hafi átt þátt í að miðla málum.
Macron ætlar á morgun að ræða við Adib og aðra stjórnmálaleiðtoga landsins á morgun um skelfilegt efnahagsástand og mótmæli síðustu mánuði, en mótmælendur hafa fordæmt gömlu valdaklíkuna í landinu og kenna henni um sprenginguna í höfninni í Beirút, fjórða þessa mánaðar sem jók enn á hörmungarnar í Líbanon.