Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Lundapysjuveiðitímabilið í hámarki í Vestmanneyjum

31.08.2020 - 19:20
Mynd: Sigurbjörg Sæunn Guðmundsdót / Aðsend mynd
Lundapysjuveiðitímabilið stendur nú sem hæst í Vestmannaeyjum. Vaskt björgunarfólk hefur nú bjargað yfir fimm þúsund lundapysjum sem villast til byggða á Heimaey.

Lundapysjuveiðitímabilið í Vestmanneyjum er uppáhaldstími margra Eyjamanna. Þegar líða tekur á ágústmánuð yfirgefur pysjan lundaholuna og stefnir á haf út. Þær taka flugið þegar fer að dimma, flestar lenda þær í sjónum en fjölmargar taka stefnuna á ljósin í bænum og villast því til byggða. Þá þarf að hafa hraðar hendur.

Mynd með færslu
 Mynd: Sandra Sif Hammer - Aðsend mynd
Ungt björgunarfólk ánægt með afraksturinn

Ýmsar hættur steðja að litlum lundapysjum

Ýmsar hættur leynast í bænum fyrir litlar pysjur til dæmis kettir og bílar en stærsta ógnin er að þær rati ekki að sjónum aftur. Björgunarfólk fer um allan bæ, safnar þeim saman og setur í pappakassa. Þar hafa þær náttstað þar til næsta dag. Áður en þeim er sleppt á haf út á ný þarf að skrá þær hjá Pysjueftirlitinu. Í ár er það gert rafrænt á vefsíðunni lundi.is. Þá er mælst til þess pysjurnar séu vigtaðar, því síðustu ár hafa margar þeirra verið ósköp litlar og veikburða. Samkvæmt upplýsingum frá pysjueftirlitinu eru þær stálpaðari í ár en í fyrra. Þá þurftu fjölmargar pysjur aðhlynningu á sjúkrahóteli Pysjueftirlitsins en nú eru þær allflestar tilbúnar að taka flugið um leið og þær sjá sjóinn. 

Mynd með færslu
 Mynd: Esther Bergsdóttir - Aðsend mynd
Hvutti nokkuð áhugasamur um pysjurnar