Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Kostnaður við sprenginguna í Beirút 1100 milljarðar

31.08.2020 - 17:27
epa08636847 Members of the Lebanese army and the Fence military walk at the damaged site of the massive blast in Beirut's port area, in Beirut, Lebanon, 31 August 2020.  EPA-EFE/GONZALO FUENTES / POOL  MAXPPP OUT
 Mynd: EPA-EFE - REUTERS POOL
Alþjóðabankinn áætlar að kostnaður af sprengingunni miklu sem varð við höfnina í Beirút þann fjórða þessa mánaðar nemi allt að 8 milljörðum dala, eða um 1100 milljörðum króna. Vegna harmleiksins, þar sem tæplega tvö hundruð létust og hundruð þúsunda misstu heimili sín, þarf Líbanon á tugmilljarða mannúðar- og hjálparaðstoð að halda frá alþjóðasamfélaginu.

Samkvæmt greiningu bankans sem unnin var í samstarfi við Sameinuðu þjóðirnar og Evrópusambandið þarf Líbanon mikið fjármagn til þess að komast upp úr því skelfilega efnahagsástandi sem sprengingin og eftirmál hennar hafa kallað fram í landinu.

Bankinn segir að ef byggja eigi upp nýtt Líbanon verði stjórnvöld að leggja áherslu á gildi gagnsæis og ábyrgðar og leita lausna sem mæti kröfum og væntingum Líbana.

Reiði og vonleysi

Mikil ólga hefur verið í landinu frá því sprengingin skók Beirút og lagði nágrenni hafnarinnar og stóran hluta miðborgarinnar í rúst. Eignatjón er gífurlegt og nærliggjandi hverfi eins og auðn. Fjöldi íbúðarhúsa og annarra mannvirkja er gjörónýtur.

Borgarbúar hafa mótmælt daglega á götum úti og viðbrögð íbúa hafa einkennst af reiði og vonleysi. Fólk kennir gjörspilltum og værukærum stjórnvöldum um hvernig fór.

Óttast borgarastríð

Emmanuel Macron, forseti Frakklands, heldur til Beirút í kvöld til þess að miðla málum. Hann hefur varað við því að borgarastríð geti brotist út og kallar eftir því að alþjóðasamfélagið komi til aðstoðar. Stjórnvöld í Líbanon geti ekki tekist á við uppbygginguna án utanaðkomandi aðstoðar.

Fyrir atburðina var efnahagsástandið í landinu afar bágborið, verðbólga var umtalsverð, atvinnuleysi mikið og innviðir takmarkaðir. Ástandið var jafnframt erfitt vegna kórónuveirufaraldursins en talið er að hamfarirnar geti aukið enn útbreiðslu COVID-19 í landinu, enda heilbrigðiskerfi landsins komið að þolmörkum.

Nýr forsætisráðherra tekur við

Stjórnvöld hafa verið sökuð um að bregðast seint og illa við. Hamfarirnar koma á tímum viðvarandi stjórnarkreppu þar sem helstu fylkingar hafa ekki komið sér saman um hvern skipa eigi í embætti forsætisráðherra.

Í morgun var tilkynnt um skipan nýs forsætisráðherra, Mustafa Adib, sem verið hefur sendiherra landsins í Þýskalandi. Hann heitir því að koma á fót umbótasinnaðri ríkisstjórn og leita til alþjóðasamfélagsins eftir stuðningi.

Skortur á nauðsynjum

Mikill skortur er á nauðsynjum í kjölfar atburðanna og í greinargerð efnahags- og félagsmálanefndar Sameinuðu þjóðanna fyrir Vestur-Asíu, kemur fram að meira en helmingur íbúa Líbanons gæti þurft á matvælaaðstoð að halda áður en árið er úti. Útlit er fyrir stóraukna verðbólgu í landinu, meira en 50% í ár, en hún var um 2,9% fyrir atburðina.

Alþjóðabankinn áætlar að skemmdir vegna sprengingarinnar nemi á bilinu 3,8 til 4,6 milljörðum dala. Þar muni mestu um byggingar í miðborg Beirút og við höfnina, atvinnu- og íbúðarhúsnæði, samgönguinnviði, sem og efnislegar og óefnislegar menningarminjar.

Þá reiknar bankinn með að efnahagslegt áfall sem muni hljótast af harmleiknum geti orðið á bilinu 2,9 til 3,5 milljarða dala. Bankinn spáir um 11% samdrætti í vergri landsframleiðslu Líbanon á árinu 2020.