Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hraðamyndavélar við Hörgárbraut á Akureyri

31.08.2020 - 09:41
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Ákveðið hefur verið að setja upp hraðamyndavélar við Hörgárbraut á Akureyri til að auka öryggi fyrir gangandi verfarendur. Íbúar halda fast við þá kröfu að gerð verði undirgöng á þessum stað.

Það eru lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra, Akureyrarbær og Vegagerðin sem sameinast um þennan búnað. Hraða- og rauðljósamyndavélar verða settar upp við gangbrautarljós á tveimur stöðum á Hörgárbraut, skammt norðan við Tryggvabraut og við Stórholt.

Myndavélarnar beintengdar við umferðarljós

Í tilkynningu frá lögreglunni segir að um nýja tegund af myndavélum sé að ræða, sem hafi ekki verið teknar í notkun hérlendis áður. Myndavélarnar eru útbúnar radartækni til hraðamælinga og eru beintengdar umferðarljósunum.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson

Mörg slys á síðustu árum

Íbúar í nágrenni Hörgárbrautar hafa lengi krafist aðgerða til að bæta öryggi gangandi vegfarenda. Mörg slys hafa orðið á götunni á síðustu árum og gangandi vegfarendur orðið fyrir bíl. Hópur fólks safnaðist saman við götuna á föstudag og krafðist úrbóta.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson

Íbúarnir vilja undirgöng

Auður Inga Ólafsdóttir, einn íbúanna, segir gott að fá þessi ljós sem nú stendur til að setja upp. En þessi búnaður dugi ekki til, íbúarnir vilji fá undirgöng. Reynslan sýni að ökumenn virði ekki gangbrautaljós við götuna og undirgöng séu eina leiðin til að tryggja öryggi gangandi vegfarenda. Göngin séu til á samþykktu deiliskipulagi og ekki hafi fengist fullnægjandi svör við því hvað hafi breyst í skipulagsmálum frá því sú samþykkt var gerð.