Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Fræða jafnaldra sína um nýja stjórnarskrá á TikTok

31.08.2020 - 14:32
Mynd: RÚV / RÚV
Tvær ungar konur nota TikTok og Instagram til að fræða jafnaldra sína um nýju stjórnarskrána. Þær segja samfélagsmiðla mikilvægt tól sem gefi ungu fólki vægi í þjóðfélagsumræðu þar sem raddir þess séu annars hunsaðar.

Gunnhildur Fríða og Ósk eru ungir aktivistar sem brenna fyrir nýrri stjórnarskrá. Þær nota samfélagsmiðla til að miðla visku sinni. Þær halda úti Instagram-síðu og Gunnhildur hefur einnig beint sjónum sínum að miðlinum TikTok þar sem hún birtir nokkurra sekúndna fræðslumyndbönd.

„Mörg myndbönd hjá mér eru komin með 30 þúsund áhorf og Instagram-síðan er með hellings áhorf og margir að tala um að það séu allir farnir að deila þessu,“ segir Gunnhildur.

„Við erum með undirskriftarlista og við erum búnar að sjá að það eru núna 16.500 manns búinn að skrifa undir undirskriftarlsitann og það er búið að stórauksast síðan við byrjuðum með samfélagsmiðlana.“

„Þegar fólk sér þetta fyrst fer það að tala um þetta og fræðast um þetta og fer að tala við ættingja og það er bara það sem við viljum.“

Þær segja samfélagsmiðla ljá ungu fólki rödd og vægi í umræðu sem sé þeim oft óaðgengileg. 

„Því við erum bara alltaf að skrolla þar og búa til fræðslu eins og núna um stjórnarskrána á mannamáli sem folk tengir við, sem fólk kannski fer að deila. Ég held að þetta sé mjög sniðug leið,“ segir Ósk.

Gunnhildur segir að verið sé að hunsa fólk í annarri þjóðfélagsumræðu. „Þannig að við tökum okkar mál yfir á samfélagsmiðla. Ég meina við erum hvort sem er öll inni í þeim þannig að af hverju ekki bara að vera með málefnilega umræðu í staðinn fyrir að vera með sjálfhverfa pósta þá getum við verið með allskonar fróðlegt þarna inni á.“

solveigk's picture
Sólveig Klara Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV