Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Fangelsisstjóri vill afglæpavæða neysluskammta

Mynd: rúv / rúv
Páll Winkel, fangelsismálastjóri, segir að á bilinu 50 - 70% fanga glími við fíknisjúkdóm. Hann segir stjórnvöld ekki taka nægilega vel á vanda glæpamanna með fíknivanda og er hlynntur afglæpavæðingu neysluskammta. Páll var gestur á Morgunvakt rásar eitt í dag.

„Ég held að við séu kannski ekki alveg á réttri leið varðandi meðferð einstaklinga sem eru veikir og haldnir fíknisjúkdómum. Ég tel mig sjá nokkuð marga einstaklinga fanga fara í gegnum kerfið aftur og aftur, klára dómana að fullu fara út, falla og brotin eru nánast eingöngu tengd neyslunni, fjármögnun fíkniefna,“ segir Páll. 

„Ég held að það þurfi að koma fram við þetta fólk frekar eins og sjúklinga og ég get alveg séð fyrir mér að innan ekki margra ára geti þetta fólk fengið að nýta þessi lyf löglega og jafnvel að yfirvöld skaffi þeim þessi lyf.“

Fangelsin urðu fíkniefnalaus þegar lokaði vegna COVID

Páll segir að þegar fangelsisyfirvöld neyddust til að loka fangelsum fyrir  heimsóknir vegna kórónuveirufaraldursins hafi streymi fíkniefna snarminnkað í  fangelsið. Fangar hafi orðið edrú og meðferðarhæfir sem hafi ekki verið það hingað til. Yfirleitt sé erfitt að eiga við hversu auðvelt sé að smygla fíkniefnum inn í fangelsið, og nefnir Páll efnið Spice sérstaklega. Hann segir að þessi tími hafi verið erfiður fyrir fanga þar sem enginn fékk að hitta sína nánustu. Þó hafi fangelsi landsins hingað til verið veirufrí.

„Nú er verið að byrja á vinnu á Litla-Hrauni við að skilja þar að fangahópa sem er bráðnauðsynlegt til að reyna hefta streymi fíkniefna og þar með gera aðbúnað starfsmanna betri.“

Loka fangelsinu á Akureyri til að fullnýta hin 

Aðspurður um hvers vegna ákveðið hafi verið að loka fangelsinu á Akureyri segir Páll: 

„Þetta er langminnsta fangelsið. Við getum fjölgað föngum og fullnýtt stóru fangelsin fyrir það fjármagn sem við notum þarna fyrir átta til tíu fanga. Ef við lokum því getum við verið með þrjátíu fanga að minnsta kosti í hinum fangelsunum fyrir sama fjármagn.“ 
Hann vísar á dómsmálaráðherra um hvenær skellt verði í lás á Akureyri.