Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Biden fordæmir óeirðir: „Ekkert af þessu eru mótmæli“

epa08290130 Democratic candidate Joe Biden speaks about the coronavirus at the Hotel Du Pont in Wilmington, Delaware, USA on 12 March 2020. The U.S. has topped 1,000 confirmed cases of coronavirus.  EPA-EFE/TRACIE VAN AUKEN
Joe Biden. Mynd: EPA-EFE - EPA
„Óeirðir eru ekki mótmæli,“ sagði Joe Biden, forsetaframbjóðandi Demókrataflokksins sem fordæmdi síðdegis ofbeldi og skemmdarverk í borgum víðsvegar um Bandaríkin. „Gripdeildir eru ekki mótmæli. Íkveikjur eru ekki mótmæli. Ekkert af þessu eru mótmæli, þetta er einfaldlega ólöghlýðni.“

Biden lagði áherslu á að allt þetta væri að gerast á vakt sitjandi forseta. Trump græfi undan öryggi í landinu með því að ýta undir klofning á tímum þegar hávær umræða fer fram um kynþáttafordóma og lögregluofbeldi og viðbrögðum hans við kórónuveirufaraldrinum og efnahagsmálum.  

Biden segir að Trump hafi fyrir löngu fyrirgert rétti sínum til að vera forgöngumaður siðgæðis í Bandaríkjunum. „Hann getur ekki stöðvað ofbeldið vegna þess að hann kynti undir því árum saman.“ 

Biden sagðist vilja sjá öryggi í Bandaríkjunum. „Örugg fyrir Covid, örugg fyrir glæpum og gripdeildum, örugg fyrir ofbeldi róttæklinga og örugg fyrir slæmum lögreglumönnum. Leyfið mér að tala skýrt: Örugg fyrir fjórum árum til viðbótar af Donald Trump.“  

Þá tók Biden fyrir fullyrðingu Trumps og stuðningsfólks hans um að Biden sé einhvers konar róttækur sósíalisti. 

„Spyrjið ykkur, lít ég út fyrir að vera róttækur sósíalisti sem er hlynntur óeirðaseggjum? Virkilega?“ spurði Biden.  

„Trúir því einhver að það verði minna um ofbeldi í Bandaríkjunum ef Donald Trump verður endurkjörinn? Við þurfum réttlæti í Bandaríkjunum. Og við þurfum öryggi í Bandaríkjunum. Við stöndum frammi fyrir fjölda krísa, krísa sem í tíð Donalds Trump hafa haldið áfram að margfaldast.“

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV