Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

62 sagt upp hjá Fríhöfninni í dag

31.08.2020 - 13:56
OZZO
 Mynd: ISAVIA/© OZZO Photography - ISAVIA
Sextíu og tveimur af 133 starfsmönnum Fríhafnarinnar var sagt upp í hópuppsögn í dag. Þetta staðfestir Þorgerður Þráinsdóttir framkvæmdastjóri Fríhafnarinnar. Vinnumálastofnun var tilkynnt um hópuppsögnina í dag. Stöðugildum hjá fyrirtækinu, sem er dótturfyrirtæki Isavia, hefur fækkað um tæp 60% frá því að áhrifa kórónuveirufaraldursins fór að gæta á landinu.

„Því miður er staðan þannig að fækkun starfsfólks er óhjákvæmileg,“ segir Þorgerður. „Útlit er fyrir að ferðamenn sem koma til landsins verði afar fáir næstu misserin og erfitt að spá fyrir um hvenær fer að horfa til betri vegar. Við hjá Fríhöfninni höfum gripið til ýmissa hagræðingaraðgerða frá því að heimsfaraldurinn hófst en því miður er staðan og útlitið verra en spáð var á fyrstu stigum.“

Þorgerður segir að mikil óvissa sé framundan og að staðan verði endurskoðuð reglulega.

Isavia sagði upp 133 starfsmönnum fyrir helgi og náðu þær uppsagnir helst til fólks sem starfar við öryggisleit í Leifsstöð.