Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Telja óráðlegt að Trump heimsæki Kenosha

30.08.2020 - 19:14
epa08361415 US President Donald J. Trump speaks at the Coronavirus Task Force press briefing at the White House in Washington, DC, USA, 13 April 2020.  EPA-EFE/Yuri Gripas / POOL
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna. Mynd: EPA-EFE - ABACA POOL
Demókratar óttast að aukin harka færist í mótmælin í Kenosha í Wisconsin-ríki ef Donald Trump Bandaríkjaforseti fylgir eftir áformum sínum um að heimsækja borgina. Mandela Barnes, vararíkisstjóri Demókrata í Wisconsin, telur að Trump ætti að hætta við heimsókn sína.

Hörð mótmæli hafa geisað í Kenosha eftir að lögregla skaut svartan mann, Jacob Blake, átta skotum í bakið. Hann slasaðist alvarlega og er sennilega lamaður fyrir neðan mitti.

Á mánudag var þjóðvarðarlið kallað til Kenosha til þess að halda uppi lögum og reglu. Útgöngubann var sett á í borginni á þriðjudag. Óeirðir, átök og skemmdarverk hafa fylgt mótmælunum en tveir hafa týnt lífi

Trump áformar að heimsækja Kenosha á þriðjudag. Þar ætlar hann að ræða við lögreglufulltrúa og leggja mat á tjón sem orðið hefur af völdum mótmælanna. 

„Heimsókn hans þjónar aðeins einum tilgangi; að ýfa upp hlutina. 66 dagar eru til kosninga og mér finnst sorglegt að við skulum eiga forseta sem leggur sig fram um að hella olíu á eldinn,“ sagði Karen Bass, þingmaður Demókrata í samtali við CNN-sjónvarpsstöðina.

Mótmælin í Kenosha hafa hrundið af stað mótmælum í fleiri borgum í Bandaríkjunum, svo sem Portland í Oregon-ríki og Minneapolis í Minnesota-ríki. Í síðarnefndu borginni var annar svartur maður, George Floyd, skotinn til bana í júní.