Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Niðjar gyðinga sem flýðu helförina fá ríkisborgararétt

30.08.2020 - 17:59
Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia Commons
Ný löggjöf í Austurríki gerir afkomendum gyðinga sem flýðu helförina kleift að öðlast austurrískan ríkisborgararétt. Lögin, sem taka gildi á þriðjudag, ná til barna, barnabarna og barnabarnabarna gyðinga sem flýðu Austurríki vegna ofsókna nasista.

Þingmennirnir sem mæltu fyrir frumvarpinu telja að nýju lögin séu liður í því að rétta hlut gyðinga sem hrökkluðust úr landinu vegna ofsókna. 

Áður giltu lög sem gerðu þeim sem flýðu helförina kleift að öðlast austurrískan ríkisborgararétt. Þar sem ekki var gefinn kostur á tvöföldum ríkisborgararétti voru fáir sem nýttu sér heimildina. Í nýju lögunum er hins vegar gert ráð fyrir tvöföldum ríkisborgararétti og þau ná einnig til afkomenda flóttamannanna. 

Talið er að um 120 þúsund gyðingar hafi flúið landið eftir að nasistar tóku völd í Austurríki í mars 1938. Flestir þeir sem flýðu ofsóknir nasista í Austurríki fóru til Bandaríkjanna. Næstflestir fóru til Bretlands. Talið er tugir þúsunda uppfylli skilyrði til þess að öðlast austurrískan ríkisborgararétt.

Austurríki er aðili að Evrópusambandinu en samkvæmt breska dagblaðinu The Guardian er sennilegt að margir Bretar sjái sér leik á borði og sæki um austurrískan ríkisborgararétt til þess að njóta sömu réttinda og ríkisborgarar aðildarríkja ESB.