Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Keppinautar Icelandair ekki beðnir álits á lánalínu

Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV
Keppinautar Icelandair Group eru ekki meðal þeirra sem beðnir eru um álit á lánalínunni sem stjórnvöld ætla að veita fyrirtækinu ríkisábyrgð á, en málið er nú til meðferðar hjá þinginu.

Fjallað er um málið á ferðavefnum Túristi.is. sem vekur athygli á að þó óskað hafi verið umsagnar 18 stofnanna, fyrirtækja og fjármálafyrirtækja, m.a. ASÍ, Ferðamálastofu, BSRB, Isavia og stóru bankanna þriggja, þá séu hvorki Samkeppniseftirlitið, né þau íslensku fyrirtæki sem eiga í samkeppni við dótturfélög Icelandair Group, á listanum.

Raunar sé óskað eftir áliti frá Play, sem ekki er enn komið með flugrekstrarleyfi, en ekki flugfélagsins Ernis sem hafi um árabil verið í samkeppni við Air Iceland Connect, eitt dótturfélaganna. Það sama gildi um allar þær íslensku ferðaskrifstofur sem eiga í samkeppni dótturfélögin Vita og Iceland Travel.

Haft er eftir Willum Þór Þórssyni, formanni fjárlaganefndar, að flestir séu meðvitaðir um mögulega röskun á samkeppni í tengslum við ríkisábyrgð á allt að fimmtán milljarða króna láni til fyrirtækisins.

Segir hann öllum vera frjálst að senda inn umsagnir og raunar sé hvatt til þess af hálfu Alþingis. Í þessu tilviki hafi verið leitað til Samtaka atvinnulífsins og Samtaka ferðaþjónustunnar, enda nái listinn sem fastanefndir sendi frá sér gjarnan til stærri aðildarfélaga og samtaka.

Í greinargerð frumvarpsins eru ríkisaðstoðarreglur og möguleg samkeppnisröskun, á öðrum mörkuðum og í tengdri starfsemi, álitamál sem Willum Þór segir flesta meðvitaða um. Stjórnvöld hafi skoðað þessa hlið og það beri fjárlaganefnd og þingi líka að gera.