Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Kanna ber ýmis álitamál áður en dánaraðstoð er heimiluð

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ekki er tekin afstaða til hvort leyfa eigi dánaraðstoð í nýrri skýrslu heilbrigðisráðherra um efnið. Skýrslan er unnin að beiðni nokkurra þingmanna.

Að mati skýrsluhöfunda er hlutlaus könnun á viðhorfi heilbrigðisstarfsfólks til dánaraðstoðar ekki útilokuð. Sömuleiðis mætti kanna viðhorf almennings auk þess sem meta þyrfti sjónarmið tengd siðferði, lífsskoðunum og réttindum fólks.

Fram kemur að árið 1997 hafi könnun Læknablaðsins leitt í ljós að um 5% lækna og 9% hjúkrunarfólks gátu talið líknardráp réttlætanlegt undir vissum kringumstæðum. Þá gátu 2% hugsað sér að verða við slíkri ósk. Á þessu ári hafi 3% getað hugsað sér það, 18% lækna og 20% hjúkrunarfólks fannst dánaraðstoð verjandi.

Bein dánaraðstoð og aðstoð við sjálfsvíg er heimil í Belgíu, Hollandi, Kanada og Lúxemborg. Í einu fylkja Ástralíu, Sviss og Finnlandi er læknisaðstoð við sjálfsvíg heimil og í tíu ríkjum Bandaríkjanna. Ekkert Norðurlandanna heimilar beina dánaraðstoð og virðist ekki vera í bígerð.

Samtökin Lífsvirðing sem stofnuð voru 2017 hafa það á stefnuskrá sinni að á Íslandi verði samþykkt löggjöf sem geri dánaraðstoð að valkosti við vissar, vel skilgreindar aðstæður og að uppfylltum ströngum skilyrðum.

Í þeim löndum þar sem atbeini við andlát er heimilaður eru aldursmörk með ýmsu móti, við vissar kringumstæður og að uppfylltum ítarlegum lagaskilyrðum er heimilt að veita börnum slíka aðstoð.

Séu þau skilyrði ekki uppfyllt getur læknir átt yfir höfði sér ákæru og allt að 12 ára fangelsi. Hið sama á við gagnvart fullorðnum en fræðimenn telja lögleiðingu dánaraðstoðar fela í sér þá áhættu að skilyrði rýmkist smám saman, jafnvel án aðkomu löggjafans.

Sömuleiðis séu uppi siðferðileg álitaefni gagnvart fólki með geðsjúkdóma sem talið er að kunni að skorta nægilega innsýn í eigin sjúkdóm og batahorfur til að taka ákvörðun um að leita sér aðstoðar við að binda endi á líf sitt.

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV