„Hann vissi ekki þá að lagið væri um þessa atburði“

Mynd: RÚV/Dagur Gunnarsson / RÚV/Dagur Gunnarsson

„Hann vissi ekki þá að lagið væri um þessa atburði“

30.08.2020 - 08:00

Höfundar

„Ég hitti hann oft á þessum tíma og hann var út úr kókaður og ruglaður,“ segir Halldóra Geirharðs leikkona um Bubba Morthens á Egótímabilinu. Halldóru fannst hann hrokafullur svikari þá, en í dag, þegar hún leikur Bubba frá sama tímabili í leiksýningunni Níu líf, segist hún sjá gullhjartað sem töffarinn verndaði með stælunum.

Þeir sem þekktu Halldóru Geirharðsdóttur leikkonu á menntaskólaárunum, og þegar hljómsveitin Risaeðlan var uppi á sitt besta, kalla hana flestir enn þá Dóru Wonder. Gælunafninu fann hún sjálf upp á þegar hún uppgötvaði aðdáun sína á ofurhetjunni Wonder Woman og hæfileika hennar til að brjótast úr fangelsi í bláum galla. „Dóra the Wonder skrifaði ég eftir þetta í strætóa með tússlit,“ segir hún í samtali við Ólaf Pál Gunnarsson í Füzz á Rás 2. „Dóra Wonder var frekar stillt en hún leyfir sér að vera með meiri orku. Hún hendir af sér hattinum og það streymir upp úr henni. Stundum fellir hún girðinguna í kringum sig en hún var ekki beint óþekk.“

Stelpur alveg jafn öflugar og skapandi

Halldóra hefur verið ein farsælasta leikkona Íslands um árabil en hún gerði líka garðinn frægan í hljómsveitinni Risaeðlunni þar sem hún lék á saxófón og söng. „Við vorum með rosa sjó, ég með saxafóninn og Magga Stína með fiðluna,“ segir Halldóra og á þarna við Margréti Kristínu Blöndal söngkonu. „Við vorum frábært tónleikaband. Við erum algjör dansfífl við Magga Stína og mikil leikgleði hjá okkur. Okkur fannst bara svo gaman.“

Þau voru pönkarar sem tilheyrðu jaðarsenu Reykjavíkur. Allar helgar fóru þau á pönktónleika eða léku á slíkum sjálf. Stelpurnar í sveitinni, Halldóra, Magga Stína og Margrét Örnólfs voru allar klassískt menntaðar í tónmenntaskóla Reykjavíkur en hinar Risaeðlurnar voru ekki með sama bakgrunn. „Strákarnir voru meiri vitleysingar og sjálfsskapaðir eins og er oft með stráka,“ segir Halldóra. „Þeir áttu hugmyndina um að þeir mættu stofna hljómsveit en sú hugmynd lá ekki eins í loftinu fyrir stelpur. Þess vegna er ég svo ánægð með Stelpur rokka til dæmis því við erum alveg jafn öflugar og skapandi og strákarnir.“ Þær áttu sér þó sterkar fyrirmyndir í tónlist á þessum tíma sem veittu þeim innblástur. Halldóra nefnir meðal annars Ellý í Q4U, Grýlurnar, Björk, B52's, Ymu Sumac, Siouxsie and the Banshees og Ninu Hagen sem hún lýsir sem geggjaðri fyrirmynd.

Horfði eituraugum á leðurklædda töffarann

Fyrr á árinu var frumsýnt nýtt leikrit í Borgarleikhúsinu um Bubba Morthens þar sem farið er í gegnum hin fjölmörgu tímabil í lifi rokkarans. Átta leikarar fara með hlutverk Bubba og túlka hans ýmsu hliðar og það er Dóra Wonder sem leikur Bubba þegar hann var í Egó, klædd leðurbuxum og leðurjakka. „Það er geggjað að vera Bubbi sko,“ segir hún þó hún hafi sjálf ekki verið aðdáandi tónlistarmannsins á þeim tíma sem hún túlkar. Henni, sem þá var fjórtán ára, fannst hann nefnilega vera svikari sem sveik jaðarsenuna. 

„Þegar Utangarðsmenn ráku Bubba eða hann hætti sjálfur, hvernig sem það var, þá fannst mér og minni klíku fannst hann algjör svikari,“ rifjar hún upp. Og ekki bætti úr skák þegar hann stofnaði Egó. „Þá fannst okkur hann algjör svikari við pönkið eða ræturnar eða baráttumanninn. Ég veit ekki af hverju mér fannst það en ég stillti mér bara upp með mínum vinum og horfði eituraugum á hann.“

Og þegar hún sá hann spígspora um göturnar, hnarreistur í leðurjakka var sem sjálfur Júdas gengi þar. „Maður var ekki þroskaðari en það á þessum aldri að maður er bara: Heyrðu, heyrðu Bubbi Morthens. Þú ætlaðir ekkert að verða svona poppari. Að skipta um föt og labba hrokafullur fram hjá manni,“ hugsaði Halldóra þá. „Ég hitti hann oft á þessum tíma, á Egó-tímanum ,og hann var út úr kókaður og ruglaður. Kannski skynjaði ég að það vantaði í hann einhverja mildi og fegurð. En svo á hann þetta allt,“ segir hún sem sér þennan tíma í öðru ljósi í dag eftir að hafa kafað í söguna og textana síðustu mánuði. „Mér finnst eins og Fjöllin hafa vakað, þegar ég hlusta á það núna, finnst mér það magnað hvað streymir í gegnum það lag,“ segir Halldóra sem syngur einmitt lagið í sýningunni. „Það var sniðugt af leikstjóranum að setja mig í myrkasta Bubbann.“

Fallegt að fá að leika hann á þessu tímabili

Hún segir ljóst að Bubbi sé í raun ótrúlega góðhjartaður maður sem hafi sett upp skjöld til að brynja sig. „Hann er með gullhjarta svo allar grímurnar hefur hann sett á sig til að verja það viðkvæmasta í sér því gull er svo mjúkt. Ég skil það allt núna,“ segir Halldóra. „Mér finnst fallegt að fá að leika hann og að það sé kona sem leikur þennan kafla í sögu Bubba því hann var svo eitraður á þessum tíma. Karlleikari getur ekki leyft sér eins mikið og ég. Þetta er um manneskjuna en ekki karlmanninn Bubba.“

Og lagið Fjöllin hafa vakað hefur fengið glænýja merkingu fyrir leikkonunni eftir að hafa túlkað hann í verkinu. „Hann er að skrifa um misnotkunina sem hann hefur svo sagt frá seinna. Fjöllin eru kerfið sem við búum undir, reglurnar sem leggjast ofan á okkur og sannleikurinn er kristallinn sem liggur undir og verður þéttari og þéttari,“ segir hún sem rýndi mikið í textann í undirbúningnum fyrir sýninuna. „Ég náði að krakka mig inn í textann og skilja hvernig undirmeðvitund hans, þrátt fyrir kókaínið og ruglið, náði að teygja sig út úr hans innsta kjarta og mesta sársauka, teygja sig upp til himnanna og ná sambandi við sköpunarkraftinn. Og það hefur bjargað Bubba. Og það eru ekki allir sem eiga þessa lífsreynslu og hafa hlotið gæfu til að láta sköpunarkraftinn steyma í gegnum sig. Þannig skil ég lagið,“ segir Halldóra.

Ólafur Páll Gunnarsson ræddi við Halldóru Geirharðsdóttur í Füzz á Rás 2. Þar sagði hún frá sinni uppáhalds rokkplötu sem er með Screamin' Jay Hawkins.

Tengdar fréttir

Tónlist

„Fjörgamalt fólk verður einn líkami aftur“

Tónlist

„Við erum Bubbi og Bubbi er við“

Bókmenntir

„Ég varð vitni að brútal nauðgun“