Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Flokksþing Repúblikana og gjáin milli Bandaríkjamanna

Mynd: EPA-EFE / EPA
Hvernig sem forsetakosningarnar í Bandaríkjunum fara í haust verður forsetatíð Donalds Trump lengi í minnum höfð. Hann er að byggja múr milli Bandaríkjanna og Mexíkó, hefur tekið harða afstöðu í innflytjendamálum, á stríði við fjölmiðla sem hann segir flytja falsfréttir, hefur tekið upp hanskann fyrir hvítum þjóðernissinnum og talað fyrir herðingu laga um þungunarrof, svo fátt eitt sé nefnt.

En fyrst og síðast hafa Bandaríkin klofnað í tvennt á forsetatíð Donalds Trump, í þá sem eru á móti honum, og í þá sem eru með honum. Þar virðist engan milliveg að finna. Í Heimskviðum vikunnar ræðum við við mann úr síðarnefnda liðinu, um flokksþingið og hvernig Repúblíkanar líta á baráttuna sem er framundan.

Óvenjulegt flokksþing að baki

Í mynbrotinu hér að neðan talar ekki kynnir í American Idol, og þetta er ekki hljóðbrot úr raunveruleikaþætti. Hér talar Kimberly Ann Guilfoyle, nýjasti meðlimur Trump fjölskyldunnar og núverandi kærasta Donalds Trump yngri, elsta sonar forsetans. Trump yngri og Guilfoyle byrjuðu að stinga saman nefjum fyrr á árinu, og á mánudagskvöldið hélt hún þessa líka þrumuræðu á flokksþingi Repúblikana í Charlotte í Norður-Karólínu. 

Hún er langt í frá sú eina úr nánustu fjölskyldu forsetans sem tók til máls á nýafstöðnu flokksþingi. Það kann að skjóta skökku við að jafn margir fjölskyldumeðlimir stigi upp í pontu á flokksþingi og raun bar vitni í vikunni, en þetta kemur í raun ekkert á óvart. Donald Trump hefur margoft sýnt það að hann fer sýnar eigin leiðir og hundsar viðteknar venjur. Þessi óvenjulegi stjórnmálamaður leggur nú af stað í sína stærstu baráttu til þessa, en það eru aðeins rúmir tveir mánuðir þar til kosið verður til forseta í Bandaríkjunum.

Samkvæmt nýjustu skoðannakönnunum hefur Joe Biden, mótframbjóðandi Trumps úr röðum Demókrata, gott forskot á sitjandi forseta. En það segir ekki alla söguna því björninn verður unninn með sigri í barátturíkjunum svokölluðu, þeim ríkjum þar sem hvorugur frambjóðandinn á sigurinn vísann. Eins og sagan hefur sýnt í gegnum tíðina, þá skiptir það ekki öllu máli hvort frambjóðandi fái meirihluta atkvæða - það eru kjörmennirnir sem telja.

Mynd með færslu
 Mynd: Amanda Penecale - Wikipedia
Michael Johns, viðmælandi Heimskviðna.

Bera föðurnum Trump fagran vitnisburð

Ég sló á þráðinn til Michael Johns, sem er meðlimur í Repúblikanaflokknum, sérfræðingur í stefnumótun og utanríkismálum og einn stofnenda Teboðshreyfingarinnar svokölluðu, eða Tea Party Movement. Teboðshreyfingin er íhaldsami armur flokksins og margir af helstu stuðningsmönnum forsetans kenna sig við hreyfinguna. Johns starfaði sömuleiðis í Hvíta húsinu í forsetatíð George W. Bush og var ræðuhöfundur forsetans. Hann hefur unnið fyrir framboð Trumps, bæði nú og fyrir fjórum árum, og stutt forsetann frá fyrsta degi. 

Johns fylgdist vel með nýafstöðnu flokksþingi og tekur ekki undir þá skoðun mína, og margra stjórnmálaskýrenda, að það hafi verið ansi sérstakt að horfa á svo marga úr nánustu fjölskyldu forsetans taka til máls á þinginu.

„Margir fjölskyldumeðlimir Trumps hafi gegnt mikilvægum stöðum í Hvíta húsinu, og þeir bera Trump sem föður fagran vitnisburð, en einnig stefnu hans og framtíðarsýn,“ segir Johns. 

Það er vissulega rétt. Eric Trump, sonur forsetans, sagðist vera stoltur af föður sínum.

Og Tiffany, yngsta dóttir forsetans, minnti flokksmenn á að ef einhver gæti reist við efnahag landsins, þá væri það pabbi gamli.

Og svo mætti lengi telja. Donald Trump yngri, Lara eiginkona Erics og kosningastjóri forsetans og forsetafrúin Melania, voru meðal þeirra sem sömuleiðis tóku til máls. En auðvitað líka aðrir mektarmenn menn innan flokksins, þar á meðal Mike Pence, varaforseti.

Repúblikanar einblína á björtu hliðarnar

„Við stöndum á krossgötum, gott fólk,“ sagði varafrosetinn í sinni ræðu. Ef þið viljið frelsi, þá er Trump ykkar maður. Ef þið viljið sósíalisma og hnignun, er Joe Biden ykkar maður. Svo mörg voru þau orð. Michael Johns segir mikilvægt fyrir Repúblikana að Pence hafi tekið til máls. 

„Og það á sama stað og textinn við þjóðsöng Bandaríkjanna, Star Spangled Banner, var saminn. Varaforsetinn minnti fólk á afrek Trumps á fyrstu þremur árum forsetatíðar hans, en einnig á allt það sem hann afrekaði á meðan kórónuverifaraldurinn hefur. Það er erfitt, þegar um 200.000 manns hafa látist af völdum faraldursins í Bandaríkjunum," segir Johns. 

Já, maður myndi ætla að það sé erfitt færa rök fyrir því að forsetinn hafi staðið sig vel í kórónuveirufaraldrinum. Í Heimskviðum hefur áður verið rætt um slæg viðbrögð hans við útbreiðslu faraldursins í upphafi og hvernig hann hafi gert lítið úr alvarleika kórónuveirunnar. Hvergi hefur kórónuveiran sem veldur Covid-19 haft harkalegri áhrif en einmitt í Bandaríkjunum. En Repúblikanar á borð við Michael Johns eru á öðru máli og einblína á björtu hliðarnar, þróun bóluefnis gangi vel og það hafi alltaf verið til nóg af öndunarvélum í landinu, segir Johns.

epa08632902 A trump supporter wears a facemask outside an airplane hanger ahead of a campaign stop by US President Donald J. Trump in Londonderry, New Hampshire, USA, 28 August 2020.  EPA-EFE/CJ GUNTHER
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Stuðningsmaður forsetans með sóttvarnargrímu í Londonderry, New Hampshire, á föstudag.

Efnahagsmálin eru lykilkosningamál fyrir Trump

Við segjum skilið við flokksþingið í bili. Eins og heyra má á tali tryggra flokksmanna á borð við Michael Johns, þá líta margir Repúblikanar svo á að Trump hafi staðið sig einkar vel í forsetatíð sinni, og þá ekki síst hvað viðkemur efnahagsmálum. Trump hefur margoft státað sig af því að hafa rifið upp efnahaginn í landinu og skapað milljónir nýrra starfa. Það eitt og sér, er alveg rétt.

Hagvöxtur jóskst um tæp þrjú prósent á síðasta ári, og þrátt fyrir bakslag vegna kórónuveirunnar, er ástandið á hlutabréfamörkuðum vestanhafs bærilegt. Johns segir mikilvægt fyrir Trump að halda áfram að hamra á einmitt þessu í kosningabaráttunni, og því séu efnahagsmálin eitt mikilvægasta kosningamálið.

Mótmæli, óeirðir og „lög og regla“

En það eru önnur málefni sem vekja gjarnan meiri athygli og umtal, málefni sem Trump gerir sjálfur mikið úr. Ef þú ert einn af 85 milljónum fylgjenda forsetans á Twitter, hlustandi góður, hefur þú eflaust tekið eftir því að forsetinn á það til að tísta, að er virðist upp úr þurru, orðunum Law and Order, í hástöfum og með upphrópunarmerki. Já, lög og regla segir forsetinn. 

Forseitnn hefur nefnilega tekið harða afstöðu með lögreglunni, sem hefur sætt harðri gagnrýni undanfarnar vikur og mánuði, sem náði hámæli eftir að hvítur lögreglumaður myrti George Floyd í Minneapolis í maí.

Mótmælin tóku sig upp aftur í vikunni eftir að lögreglumaður í Kenosha í Wisconsin skaut svartan mann, Jacob Blake, sjö skotum í bakið í síðustu viku. Myndbandsupptaka af atvikinu er hræðileg áhorfs, og kraftaverki líkast að Blake sé enn á lífi. Donald Trump yngri tjáði sig um morðið á George Floyd á flokksþinginu í vikunni. Hann sagði að það sem „kom fyrir“ George Floyd væri hneyksli, en fólk mætti ekki missa sjónar á því að lögreglumenn væru sannar, bandarískar hetjur. 

Sjálfur kallar forsetinn mótmælendur skríl og skemmdarvarga, og taka stuðningsmenn hans undir þau orð, þar á meðal Michael Johns sem segir lögleysu og óeirðir ríkja einmitt í þeim ríkjum þar sem Demókratar eru ríkisstjórar. 

„Við erum með sérstaklega óábyrga ríkisstjóra úr röðum Demókrata, sérstaklega í Oregon og Washington,“ segir Johns. Semsagt, það sé ekki tilviljun mesti ófriðurinn sé í ríkjum Demókrata, sem hafi ekkert gert sjálfir til að fordæma ofbeldið á sínum landsfundi, segir Johns.  Johns gengur svo langt að segja, að í raun leggi Demókratar blessun sína yfir þann mikla ófrið sem hefur geysað í Bandaríkjunum síðustu vikur og mánuði.

Já, þetta eru „við“ á móti „hinum“. Ef þú ert ekki búinn að átta þig á því nú þegar hlustandi góður, þá hefur gjáin milli Demókrata og Repúblikana í Bandaríkjunum, aldrei verið dýpri.

epa07749373 Pro-choice advocates and supporters of the Reproductive Health Care Reform Bill hold a rally outside the New South Wales (NSW) Parliament in Sydney, Australia, 31 July 2019. The bill, which has multi-partisan support, will decriminalize abortion and introduce a law to regulate the procedure. NSW is the only state in Australia that has not decriminalized abortion.  EPA-EFE/DEAN LEWINS  AUSTRALIA AND NEW ZEALAND OUT
 Mynd: EPA-EFE - AAP
Víða er tekist á um þungunarrof. „Pro-Chocie" mótmæla lögum um þungarrof í Ástralíu á síðasta ári.

Trump tekur u-beygju í afstöðu sinni til þungunarrofs

Eins og margoft hefur verið komið inn á Heimskviðum, hefur pólariseríngin, eða skautunin, í bandarískum stjórnmálum og Bandaríkjunum almennt aukist jafnt og þétt frá því Trump tók við embætti. Og það eru einmitt umdeilstu málin sem Trump virðist vera að setja í forgang, nú þegar kosnignabaráttan er að hefjast fyrir alvöru. 

Margir úr framlínu Demókrata hafa talað opinskátt fyrir mikilvægi þess að lög um þungunarrof séu ekki hert, og að konur hafi fullan rétt yfir eigin líkama. Áður en Trump fór í forsetaframboð, var hann sömuleiðis fylgjandi þessum rétti, en skipti um skoðun þegar hann fór í framboð, og hamrar nú á mikilvægi þess að herða lögin.

Hann fékk meira að segja nunnu, já nunnu; systur Deirdre Byrne til að taka til máls á flokksþinginu.

„Donald Trump er mesti pro-life foreseti þessarar þjóðar,“ sagði systir Byrne, en ugtakið pro-life er notað um andstæðinga þungunarrofs. „Hann ver réttin til lífs á öllum stigum og trúir því að líifð sé heilagt,“ sagði hún. Og undir það tekur viðmælandi minn, Michael Johns. „Þessi forseti okkar hefur sýnt ófæddu lífi mikla virðingu,“ segir Johns.

Trump og útilokunarmenningin

Og svo er annað mál, sem er ekki síður hitamál um þessar mundir, sem Repúblikanar hafa tekið einarða afstöðu gegn. Það er cancel-kúltúrinn svokallaði, eða útilokunarmenningin. Stundum er talað um að vera cancellaður, eða útlokaður, þegar einstaklingar sem hafa gerst brotlegir á einn eða annan hátt, eru teknir af dagskrá í orðsins fyllstu merkingu. Repúblikanar virðast telja Demókrata ötula baráttumenn fyrir því að fólk sé sett út af sakramentinu án dóms og laga, fyrir eitthvað sem það hefur gert eða sagt.

Á flokksfundinum í vikunni var ljóst að ræðumenn- og konur settu lögðu áherslu á að repúblikanar væru EKKI þannig. Skipuleggjendur fengu meira að segja Nick Sandmann, sem varð heimsfrægur á nokkrum klukkutímum í janúar á síðasta ári, til að tala á ráðstefnunni. Sandmann, sem þá var í menntaskóla, þessi hafði staðið ögrandi glottandi fyrir framan hóp innfæddra bandaríkjamanna sem mótmæltu fyrir framan Lincoln minnismerkið í Washington D.C. Ekki nóg með það, þá var hann með húfuna frægu á hausnum, þessa rauðu sem á stendur Make America Great Again. Netverjar tættu í Sandmann í sig og sökuðu hann um rasíska tilburði.

„Ég læt ekki cancela mig.“ sagði Sandmann á flokksþinginu, „gerum Bandaríkin frábær á ný.“ Viðmælandi minn Michael Johns, segir mikilvægt að Repúblikanar standi vörð um hina canceluðu og aðferðir þeirra sem beita cancel kúltúrnum, séu ekkert annað en fasískar, hvorki meira né minna.

„The Radical Left“

Þeir sem fylgst hafa með bandarískum stjórnmálum undanfarin misseri hafa tekið eftir því hvernig orðræða Repúblíkana, og þá sérstaklega forsetans, um Demókrata, hefur breyst frá því sem áður var. Flokkurinn er kallaður sósíalistaflokkur, róttækur vinstriflokkur, og stuðningsmenn þeirra róttækur vinstri skríll. Fyrir Evrópubúa kann þessi lýsing á Demókrötum að hljóma nokkuð hjákátlega, enda er ansi langt á milli stefnumála Joe Bidens og Kamelu Harris annars vegar, og þeirra róttæku vinstriflokka sem víða njóta stuðnings í Evrópu, meðal annars á Íslandi. 

Michael Johns segir Demókrata geta sjálfum sér um kennt fyrir þennan stimpil. Þeir hafi eitt sinn verið hófsamari, en sósíalísk hugmyndafræði sé nú að taka yfir flokkinn.

epa08290130 Democratic candidate Joe Biden speaks about the coronavirus at the Hotel Du Pont in Wilmington, Delaware, USA on 12 March 2020. The U.S. has topped 1,000 confirmed cases of coronavirus.  EPA-EFE/TRACIE VAN AUKEN
Joe Biden. Mynd: EPA-EFE - EPA
Í augum margra Repúblikana eru Demókratar eins og Joe Biden og Kamala Harris, sósíalistar.

Björninn vinnst í barátturíkjunum

Donald Trump tók sjálfur til máls áður flokksþinginu var slitið aðfaranótt föstudags. Þar áréttaði hann að aldrei hefðu kjósendur áður staðið framm fyrir tveimur jafn ólíkum flokkum og nú.

Og það er alveg rétt hjá forsetanum, og það er sömuleiðis að miklu leyti honum að þakka, eða kenna, það fer eftir því hvernig þú lítur á það. Orð og gjörðir forsetans á þessu kjörtímabili hafa klofið Bandaríkin í tvennt. Það er ekkert annaðhvort eða lengur. Annaðhvort hatarðu Trump, eða elskar hann. Í samtali mínu við Michael Johns fann ég að ég hefði allt eins getað verið að ræða við Donald Trump sjálfan. Það sem hann gerir og segir er rétt að mati Johns, það sem Biden gerir, er rangt. 

Eins og staðan er núna, vilja 50% kjósenda að Joe Biden verði næsti forseti Bandaríkjanna, 42% vilja fjögur ár í viðbót af Donald Trump, samkvæmt skoðannakönnun frá því fyrr í vikunni.

Ef kjósendur eru jafn tryggir sínum frambjóðendum og stjórnmálaskýrendur telja, mætti ætla að sigur Demókrata sé vís í kosningunum 3. nóvember. En þetta er auðvitað ekki svona einfalt. Kjörmannakerfið svokallaða gerir það að verkum að sá frambjóðandi sem vinnu fleiri ríki, vinnur kosningarnar. Það þekkir Hillary Clinton, frambjóðandi Demókrata árið 2016 á eigin skinni. Clinton hlaut fleiri atkvæði en Trump en tapaði mikilvægum ríkjum sem varð til þess að Trump hafði betur. 

Sigur Bidens í ákveðnum ríkir þykir öruggur, og sigur Trumps í öðrum. En enn eru nokkur ríki spurningamerki og þar verður björninn unninn. Biden hefur eins og sakir standa örlítið forskot í fleiri barátturíkjum, t.d. Arizona, Michican, Ohio, Wisconsins og heimaríki sínu Pennsylvaníu. Trump leiðir hinsvegar í Georgíu, Iowa og Texas. 

En eitt er víst, næstu tveir mánuðir verða forvitnilegir í meira lagi - og gjáin milli demókrata og repúblikana, gjáin milli Bandaríkjamanna sem hafa ólíka sýn á heiminn, kemur aðeins til með aukast.