Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Ekki forgangsatriði að láta reyna á lögmæti aðgerða

Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Jóhannes Þór Skúlason framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar segir það ekki hafa verið forgangsatriði að láta reyna á lögmæti hertra aðgerða við landamærin. Samtökin hafi þó komið sjónarmiðum sínum skýrt á framfæri við yfirvöld.

Jóhannes Þór kveðst ekki vita til þess að félagsmenn hafi í hyggju að láta reyna á lögmæti tvöfaldrar skimunar við landamærin með sóttkví á milli. Reimar Pétursson fyrrverandi formaður Lögmannafélagsins sagðist í viðtali við fréttastofu í gær telja möguleika á að láta reyna á lögmæti ráðstafananna.

Jóhannes Þór segir það ekki hafa verið forgangsatriði hjá samtökunum. Hann segir samtökin hafa í brennidepli hvort mögulegt sé að frá stjórnvöldum komi einhvers konar mótvægisaðgerðir í ljósi þess hve neikvæð áhrif aðgerðirnar hafi haft á ferðaþjónustufyrirtæki.

Jóhannes Þór segist telja að hægt hefði verið að fara aðrar og síður íþyngjandi leiðir en tvöfalda skimun. Hins vegar hafi ekki verið hægt að vita fyrir fram að niðurstaðan yrði sú sem nú raun ber vitni. „Við höfum ekki verið beinu sambandi við sóttvarnarlækni varðandi þær aðgerðir sem hann er að leggja til," segir Jóhannes.

Samtökin hafi þó verið í beinum samskiptum við landlækni varðandi útfærslu á hvernig sóttkví skuli háttað. Jóhannes Þór álítur að stjórnmálamenn og aðrir sem sjá um framkvæmd sóttvarna þekki vel sjónarmið ferðaþjónustunnar um hvernig eigi að haga þeim.