Mynd: Hilmar Kári Hallbjörnsson - Canon 5D Mark III
Kona var tekin með mikið magn af kannabisefni í Flugstöð Leifs Eiríkssonar fyrr í mánuðinum. Hún var að koma frá Malaga á Spáni þegar tollgæslan stöðvaði hana. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglustjóranum á Suðurnesjum.
Tollgæsla leitaði í ferðatösku konunnar og var hún handtekin eftir að efnið fannst þar. Hún var úrskurðuð í gæsluvarðhald en sætir nú tilkynningaskyldu.
Lögreglan á Suðurnesjum rannsakar einnig mál rúmlega þrítugs karlmanns sem var með nær 300 töflur af oxycontin í fórum sínum við komuna hingað til lands. Hann var að koma frá Gdansk í Póllandi í lok síðasta mánaðar þegar upp komst um efnin. Hann var handtekinn en látinn laus að skýrslutöku lokinni.