Snerting leyfð að nýju á leiksviði

Mynd: RÚV / RÚV

Snerting leyfð að nýju á leiksviði

29.08.2020 - 13:00

Höfundar

Snerting var leyfð í gær á æfingum leikhúsanna í fyrsta sinn frá því að faraldurinn skall á. Hingað til hafa leikarar þurft að virða tveggja metra regluna á æfingum, og því hafa atriði sem krefjast líkamlegrar snertingar orðið að sitja á hakanum.  

Fyrsta frumsýning Borgarleikhússins á þessu leikári verður 18. september þegar Oleanna eftir David Mamet verður sýnt. Verkið var nánast tilbúið í vor en vegna COVID stoppaði allt í mars. Verkið, sem aðeins tveir leikarar taka þátt í, hefur að undanförnu, eftir að það var leyft, verið æft með að minnsta kosti tveggja metra millibili.

„Það hefur auðvitað verið áskorun, það hefur náttúrlega ekki verið hægt að snertast. Í þessu verki eru átök sem að... leikarar verða að snertast, en við höfum sneitt hjá því og æft allt hitt sem hægt er að æfa og svo bara tölum við okkur í gegnum átökin og svo bara höldum við áfram. Þannig að þeta er búið að vera mikil áskorun,“ segir Gunnar Gunnsteinsson leikstjóri.

Í vor var Hilmir Snær Guðnason leikstjórinn, en hann leikur nú annað hlutverkið þar sem Ólafur Darri Ólafsson, sem átti að leika það í vor, þurfti að sinna öðrum verkefnum. Hilmir Snær leikur vinsælan háskólakennara og Vala Kristín Eiríksdóttir námsmann sem kemur í námsviðtal sem umbyltir lífi þeirra beggja. Þau segja að það sem hafi kannski skipt meira máli en tveggja metra reglan var óvissan hvort hægt yrði síðan að sýna. Aðeins sextíu áhorfendur verða leyfðir í rúmlega tvö hundruð manna sal og það verði öðruvísi og því þurfi að aðlagast, en þau fagna því að hægt verði að sýna.

„Bara að fá að sýna þetta fyrir, þó það væru ekki nema tíu manns, það væri bara stórkostlegt. Þetta er búið að vera svo lengi í pípunum,“ segir Vala Kristín og Hilmir Snær tekur undir það.
„Já, það er búið að vera í fimm mánuði í pípunum.“

Og  í gær mátti í fyrsta sinn æfa verið með snertingu.

„Ég svaf ekkert, ég gat ekki beðið eftir að fá að koma við Hilmi,“ segir Vala Kristín.
„Einmitt, einmitt,“ segir Hilmir Snær, „ Jú, það verður alla vega gott að geta byrjað að setja hluti sem hafa setið á hakanum.“
 

Leiðrétting:

Vala Kristín er ranglega sögð Einarsdóttir í myndskeiðinu með þessari frétt. Hið rétta er að Vala Kristín er Eiríksdóttir. Beðist er velvirðingar á þessum mistökum.