Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Sænskt gengjastríð fyrir dönskum dómstólum

Mynd: DR / DR
Fimm Svíar voru í gær dæmdir í áratuga fangelsi fyrir morð í úthverfi Kaupmannahafnar. Málið er hluti af áralögu stríði glæpagengja í Stokkhólmi sem kostað hefur fjölmörg mannslíf. Leiðtogi stjórnarandstöðunnar í Svíþjóð jafnar ofbeldi glæpagengjanna við faraldur, sambærilegan Covid. 

Kári Gylfason skrifar frá Gautaborg.

Mennirnir fimm sem voru sakfelldir í Danmörku í gær eru ekki gamlir. Þrír þeirra eru rétt skriðnir yfir tvítugt og voru í dag dæmdir í ævilangt fangelsi. Þeir tveir yngstu voru enn ekki orðnir átján ára og því enn börn í skilningi laga í júní í fyrra, þegar morðin voru framin. Þeir voru í dag dæmdir í tuttugu ára fangelsi.

Vinátta sem endaði í vígaferlum

Morðin eru hluti af áralöngu stríði tveggja gengja frá Rinkeby - fátæku úthverfi Stokkhólms. Forsprakkar gengjanna voru upphaflega vinir en síðar brutust út deilur um hvernig skipta ætti þýfi úr vopnuðu ráni - deilur sem síðan hafa stigmagnast og leitt til langvarandi vígaferla. 

Samkvæmt dómnum í gær, voru mennirnir sem ráðist var á, lokkaðir í gildru í Herlev - úthverfi Kaupmannahafnar. Þar réðust óvinir þeirra að þeim með skammbyssum og AK-47 hríðskotariffli - myrtu tvo og særðu þann þriðja alvarlega.

Maður í nærliggjandi húsi tók myndskeið af ódæðinu. Og ódæðismönnunum mistókst að brenna flóttabílinn og losa sig við önnur sönnunargögn. Í bílnum og í íbúð í Árósum fundust föt, vopn og DNA-sýni. Því hafði lögregla talsvert af sönnunargögnum. Sakborningar héldu því aftur á móti fram fyrir dómi að þeir hafi bara verið í Danmörku til að skemmta sér og þeir væru ekki í neinu gengi.

Þessar skýringar þóttu ótrúverðugar - sérstaklega í því ljósi að líkt og títt er um þá sem ákærðir eru í tengslum við gengjastarfsemi - þá neituðu mennirnir lengst af að segja aukatekið orð við yfirvöld. 

Misjafnar túlkanir danskra og sænskra dómstóla

Í fjölmiðlum hér í Svíþjóð hefur verið bent á að við réttarhöld fyrir sænskum dómstólum, skipti þess háttar þögn og skortur á samvinnu engu máli. Grunaðir menn geti vel kosið að þegja í öllum yfirheyrslum og þegja öll réttarhöld, þangað til framburður vitna er kominn fram, og þá lagt fram skýringar sínar. Þær séu ekki taldar neinu minna trúverðugar þótt þær berist seint, og því geti það verið auðvelt fyrir sakborninga að haga framburði sínum eftir aðstæðum.

Mynd með færslu
 Mynd: TV2

Í umfjöllun sænskra fjölmiðla um réttarhöldin í Danmörku hefur raunar ítrekað verið bent á hversu miklu harðar er tekið á glæpagengjum í Danmörku heldur en í Svíþjóð. Hvort sem um er að ræða það hvernig rétturinn metur trúverðugleika framburðar, eða hvernig rannsóknum glæpamála er hagað eða þá reglu, sem fylgt var í dag, að þegar ofbeldi tengist starfsemi glæpagengja, þá eigi dómar að vera tvöfalt þyngri en ella.

Vonleysi gagnvart glæpagengjum

Hér í Svíþjóð virðast margir upplifa ákveðið vonleysi frammi fyrir vandanum. Gengin valda ótta, sérstaklega í fátækum úthverfum þar sem þau eru valdamikil en íbúarnir upplifa sig afskipta. Fólk er hrætt við að tala við lögreglu, hvað þá bera vitni gegn glæpamönnum. Að jafnaði tekst aðeins að upplýsa eitt af hverjum fimm morðum sem framin eru í tengslum við skipulagða glæpastarfsemi hér í Svíþjóð.

Morð á nýbakaðri móður í Malmö í fyrra, sem vakti mikla reiði, er enn óupplýst. Og lögregla hefur engar vísbendingar um hver það var sem skaut á og myrti tólf ára stúlku í úthverfi Stokkhólms fyrir nokkrum vikum. Hún var úti að ganga með hundinn sinn og líklega skotið á hana fyrir mistök. 

Glæpagengi setti upp vegartálma

Og gengin virðast sífellt áræðnari. Hér í Gautaborg var nýlega lýst yfir sérstöku viðbúnaðarstigi og borgaryfirvöld vöruð við því að hörð átök væru í uppsiglingu milli tveggja glæpagengja hér í borginni. Annað gengjanna - sem er í Angered, fátæku úthverfi, setti nýlega upp vegartálma. Vopnaðir menn í skotheldum vestum stöðvuðu bíla sem áttu leið inn í hverfið og lýstu inn í þá með vasaljósum. Í byrjun vikunnar var starfsmanni við skóla í Angered svo rænt og viðkomandi misþyrmt líkamlega. Starfsmaðurinn hafði tekið eftir tveimur mönnum inni í skólanum og virtist annar þeirra vera með skammbyssu í buxnastrengnum. Starfsmaðurinn gerði lögreglu viðvart, en í lok vinnudagsins var setið fyrir honum, hann dreginn inn í bíl og laminn. 

Það eru ýmsar vísbendingar um að glæpagengi, lög og regla verði í brennipunkti í stjórnmálaumræðunni hér í Svíþjóð næstu misserin. Ulf Kristersson, formaður hægriflokksins Moderaterna, stærsta stjórnarandstöðuflokksins, líkti ofbeldi glæpagengja nýlega við faraldur, á pari við Covid-faraldurinn. 

Stjórn Jafnaðarmanna og Græningja hefur þegar lagt til 34 tillögur í málaflokknum. Þær snúa meðal annars að því að styrkja lögregluna, auka heimildir til að hlera samskipti og tölvur og gera lögreglu auðveldara að ráðast í húsleitir. Þá stendur til að leyfa það að kalla til nafnlaus vitni í réttarhöldum. Gagnrýnendur segja þetta draga úr réttaröryggi. Og aðrir benda á að í skjóli nafnleysis geti fólk úr undirheimunum komið keppinautum sínum bak við lás og slá. 

Kári Gylfason
Fréttastofa RÚV