Fyrstu umræðu um frumvarp fjármálaráðherra um ríkisábyrgð vegna Icelandair lauk á áttunda tímanum í gærkvöldi og var málinu vísað til fjárlaganefndar.
Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að íslenska ríkið ábyrgist lánalínu til flugfélagsins upp á 108 milljónir bandaríkjadala eða sem nemur um 15 milljörðum íslenskra króna. Ákveðin skilyrði eru sett fyrir ábyrgðinni sem sé til þrautavara, meðal annars að Icelandair takist að auka hlutafé sitt um 20 til 23 milljarða króna, en hlutafjárútboðið fer fram um miðjan september.
Fjölmargir hafa sent inn umsagnir vegna frumvarpsins, meðal annars Ríkisendurskoðun. Þar segir meðal annars að skilyrðin fyrir ábyrgðinni virðist málefnaleg og væntanlega ákveðin eftir ítarlega umræðu æðstu stjórnenda þeirra ráðuneyta sem hlut eiga að máli.
Helsta álitamálið sé hvernig tryggingum fyrir endurheimtu ríkisábyrgðar skuli háttað, segir Ríkisendurskoðun. Frumvarpið sé fáort um þetta, en ljóst megi vera að veðhæfi félagsins sé orðið þannig að lítíð sé um hefðbundin veð sem unnt væri að setja til tryggingar láni, nema vera aftarlega í veðröðinni. Í frumvarpinu segir að komi til gjaldþrots Icelandair muni tilteknar eignir félagsins, eins og vörumerki, bókunarkerfi og eftir atvikum lendingarheimildir renna til ríkissjóðs. Þar með sé tryggt að hægt verði að ráðstafa lykileignum félagsins til að stuðla að hraðri upbbyggingu að nýju. Ríkisendurskoðun telur hins vegar afar ósennilegt að þær eignir sem tilgreindar séu standi undir kröfum sem geti numið allt að fimmtán milljörðum króna.
Ennfremur segir Ríkisendurskoðun að ástæða sé til að velta fyrir sér hvort þær sviðsmyndir sem stjórnendur Icelandair hafa sett upp og byggt áætlanir sínar á, séu raunhæfar. Um það sé útilokað að leggja mat á nema með ítarlegri úttekt sérfróðra aðila og þá væri raunar alveg óvíst að eitthvað nýtt myndi koma fram. Ríkisendurskoðun geti því ekki lagt mat á það atriði. Rétt hafi þótt að vekja athygli fjárlaganefndar á þessu þannig að Alþingi sé ljóst að óvissuþættir séu fyrir hendi.
Annar möguleiki væri að ríkissjóður eignaðist hlut í Icelandair ef gengið yrði á ábyrgðir eða hreinlega tæki reksturinn yfir og seldi áfram. Það sé hins vegar ekki Ríkisendurskoðunar að taka afstöðu til þess.