Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Morales sakaður um að barna stúlku

epaselect epa07986944 (FILE) Evo Morales, President of Bolivia arrives for the 2019 Climate Action Summit which is being held in advance of the General Debate of the General Assembly of the United Nations at United Nations Headquarters in New York, New York, USA, 23 September 2019 (reissued 10 November 2019). According to media reports on 10 November 2019, Bolivian President Evo Morales has announced his resignation. Morales had announced earlier in the day new general elections, following the report of the Organization of American States (OAS) that recommended the repetition of the first round of the elections held on October 20.  EPA-EFE/PETER FOLEY
Evo Morales, fyrrum forseti Bólivíu. Mynd: Peter Foley - EPA
Jeanine Anez, starfandi forseti Bólivíu, segir að fyrrverandi forsetinn Evo Morales verði að svara fyrir ásakanir um kynferðisbrot gegn tveimur stúlkum undir lögaldri. Hann er sakaður um að hafa barnað aðra þeirra.

 

Ásakanirnar gegn Morales bárust í vikunni. Dómsmálaráðuneytið hóf þegar í stað rannsókn á nauðgun og mansali forsetans fyrrverandi. Yfirvöld segjast hafa í fórum sínum fæðingarvottorð sem sýnir að Morales sé faðir barns sem stúlka á sextánda ári fæddi.

Stjórnmálaflokkur Morales, MAS, segir ásakanirnar af pólitísku bergi brotnar og til þess gerðar að koma niður á flokknum í forsetakosningunum í október. Morales er sjálfur ekki í framboði. Hingað til hefur flokksbróðir hans, Luis Arce, verið efstur í skoðanakönnunum. 

Í útlegð eftir kosningasvindl

Morales er í útlegð í Argentínu. Utanríkisráðherra Bólivíu, Karen Longaric, segir að argentínsk stjórnvöld eigi að losa sig við Morales í stað þess að verja hann hvað sem það kostar. 

Morales vann umdeildar forsetakosningar í október í fyrra, þrátt fyrir að stjórnarskráin bannaði honum að bjóða sig fram til síns fjórða kjörtímabils. Við tóku fjölmenn mótmæli, og ekki minnkuðu þau þegar Samtök Ameríkuríkja komu upp um kosningasvindl. Eftir að Morales glataði stuðningi hersins flúði hann land. Hann fór fyrst til Mexíkó í desember en færði sig síðar til Argentínu.