Innanríkisráðherra Líbíu sagt upp

29.08.2020 - 03:31
Erlent · Afríka · Líbía
epa02690573 Libyan rebel fighters are seen behind a tattered pre-Gaddafi era Libyan flag as they hold a position at a check point near the front line between Ajdabiya and Brega, Libya, 16 April 2011. Residents of Libya's third largest city, Misurata,
 Mynd: EPA
Innanríkisráðherra alþjóðlega viðurkenndra stjórnvalda í Líbíu var vikið tímabundið úr starfi í gærkvöld vegna árása vopnaðra sveita á friðsama mótmælendur í síðustu viku. Í yfirlýsingu stjórnvalda segir að rannsókn sé hafin á ummælum hans um mótmæli og atburði í Tripoli og öðrum borgum. 

Mótmælendur hópuðust saman í höfuðborginni á sunnudag gegn bágum aðbúnaði og almannaþjónustu í landinu. Þau urðu dagleg, en fóru jafnan friðsamlega fram. Á miðvikudag skaut vopnuð sveit manna mótmælendur og rændi þeim. Innanríkisráðherrann brottrekni, Fathi Bashagha, sagðist þá lofa því að vernda óvopnaða almenna borgara fyrir ofbeldi glæpagengja. 

Bashagha sendi frá sér yfirlýsingu á Facebook-síðu innanríkisráðuneytisins í gærkvöld þar sem hann segist reiðubúinn að taka þátt í rannsókninni. Hann gerir þó þá kröfu að yfirheyrslur verði sýndar í beinni útsendingu til þess að tryggja gegnsæi.

Upplausn er í stjórnkerfi Líbíu og hefur borgarastyrjöld verið viðvarandi í landinu allt frá því að Moammar Gaddafi var komið af valdastóli árið 2011. Her ríkisins skiptist í tvær fylkingar, annars vegar þá sem styður alþjóðlega viðurkennd stjórnvöld, og hins vegar stuðningsmenn Khalifa Haftar, sem er við völd í stórum hluta landsins.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi