Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Herinn mun ekki hlutast til um kosningarnar

epa08571604 US President Donald J. Trump arrives for a press briefing in the Brady Press Briefing Room of the White House in Washington, DC, USA, on 28 July 2020.  EPA-EFE/Oliver Contreras / POOL
Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur ekki vilja svara hvort hann muni sætta sig við úrslit kosninganna. Mynd: EPA-EFE - Sipa USA Pool
Bandaríski herinn mun ekki hlutast til um forsetakosningarnar í nóvember, né heldur eiga þátt í að skera úr um niðurstöður þeirra verði úrslitin dregin í efa.

Þetta kemur fram í skriflegu svari Mark Milley, sem er einn æðsti yfirmaður hersins við fyrirspurn bandarískra þingmanna. Bandarískir fjölmiðlar hafa í sumar velt upp spurningum um hvað gerist sætti Donald Trump Bandaríkjaforseti sig ekki við niðurstöður kosninganna, eða úrslit þeirra verði umdeild með öðrum hætti.

CNN sjónvarpsstöðin segir demókratana og þingmennina Elissa Slotkin og Mikie Sherrill, sem eiga sæti í hernaðarnefnd þingsins, hafa lagt fram fyrirspurnin um það hvort aðkoma hersins sé inni í myndinni.

„Stjórnarskráin og lög Bandaríkjanna og ríkja þeirra hafa komið á ferlum um það hvernig kosningar fara fram og hvernig á að leysa deilur vegna úrslita kosninga,“ segir Milley í bréfinu. „Ég tel bandaríska herinn ekki vera hluta af því ferli.“

Það sé hlutverk bandarískra dómstóla og þingsins að úrskurða í málinu, komi upp vafamál. „Ekki bandaríski hersins,“ bætti hann við.

Segist Milley vera fastur á þeirri skoðun sinni að bandaríski herinn eigi að vera ópólitískur, en her landsins hefur til þessa aldrei hlutast til um úrslit kosninga.

Trump leiddur út úr Hvíta húsinu með hraði

CNN segir Joe Biden, forsetaframbjóðanda demókrata, fyrst hafa komið með hugmyndina um aðkomu hersins í sjónvarpsþættinum The Daily Show er hann var spurður hvað myndi gerast ef Trump lúti lægra haldi í kosningunum og neiti að yfirgefa Hvíta húsið.

„Ég lofa ykkur og ég er algjörlega sannfærður um að þeir munu leiða hann á brott úr Hvíta húsinu með hraði,“ svaraði Biden.

Biden er ekki eini áhrifamaðurinn innan Demókrataflokksins sem hefur verið með vangaveltur um að Trump yfirgefi Hvíta húsið ekki af fúsum og frjálsum vilja.

Sjálfur hefur forsetinn á stundum neitað að gefa upp hvort hann muni sætta sig við niðurstöður kosninganna. „Við verðum bara að sjá til,“ sagði hann. „Ég verð að sjá til. Ég ætla ekki að segja já og ég ætla ekki að segja nei og ég gerði það ekki heldur síðast,“ sagði Trump í viðtali á Fox sjónvarpsstöðinni í júlí.