Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Framhald strandveiða í september siglir í strand

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Fjöldi strandveiðimanna er nú atvinnulaus vegna skorts á aflaheimildum. Ekki virðist samhugur á Alþingi um þá lagabreytingu sem þarf til að opna fyrir strandveiðar í september.

Lengja þyrfti strandveiðitímabilið

„Heimila þyrfti strandveiðar frá maí til september en ekki maí til ágúst eins og nú er,“ segir Örn Pálsson framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda.

Við það að Alþingi kom saman 27. ágúst hafi kviknað von um að Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra breytti lögum og framlengdi strandveiðar til septemberloka.

Þær voru stöðvaðar þann 19. ágúst eftir að ráðherra taldi sig ekki hafa lagaheimild til að bæta við veiðiheimildum til að tryggja veiði til ágústloka. Með því hefði útgerð um 520 báta verið tryggð til ágústloka og afleidd störf í landi.

Á vef Landssambands smábátaeigenda kemur fram að með heimild til veiða í september hefðu 350 haldið atvinnu auk fjölda í afleiddum störfum í landi.

Ekki samstaða meðal flokka um breytingar

Á fundi atvinnuveganefndar Alþingis kom fram að ráðherra telji ekki mögulegt að að opna fyrir strandveiðar nema með lagabreytingu. Lilja Rafney Magnúsdóttir formaður nefndarinnar segir í samtali við fréttastofu lítinn tíma  til stefnu nú í þingstubbnum.

„En ég met það líka þannig að eftir fund atvinnuveganefndar að ekki myndi nást samstaða meðal allra flokka um slíkar breytingar þannig að við erum komin í strand með þetta.“

Lilja Rafney kveður mikilvægt að efla strandveiðar til lengri tíma og fá endurskoðun á þeim félagslega hluta aflaheimilda sem felst í 5,3% reglunni. Hún vísar til þess að árlega er sú prósenta tekin af heildarafla hverrar fisktegundar áður en aflamarki er úthlutað á grundvelli aflahlutdeildar.

Ekki náðist í Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við vinnslu fréttarinnar.