Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Fjórir inn og fjórir út – núggatkrisp vinsælastur

Mynd: Nói Siríus / .

Fjórir inn og fjórir út – núggatkrisp vinsælastur

29.08.2020 - 10:00

Höfundar

Í vikunni var sagt frá róttækum breytingum á einum af hornsteinum íslensku jólanna, Nóa konfektinu. Fjórir molar detta út og fjórir nýir koma í staðinn. Þetta er mikið hitamál og á samfélagsmiðlum hafa margir lýst yfir vonbrigðum með molana sem hverfa á brott.

Silja Mist Sigurkarlsdóttir viðurkennir að þetta sé djarfur leikur enda hafi innihaldi konfektkassanna varla verið breytt árum ef ekki áratugum saman. „En við sáum tækifæri í tilefni af 100 ára afmæli Nóa Siríusar í ár og erum virkilega ánægð með útkomuna,“ segir Silja í samtali við Mannlega þáttinn. Einn nýju molanna er með rjómatrufflu, og einn þeirra er með lakkrís. „Þessi þríhyrndi með krummunum er lakkrísmolinn okkar. Það hefur aldrei verið lakkrísmoli í konfektinu áður en nú er tími til, enda dálæti Íslendinga á lakkrís heimsþekkt.“

Einn nýju molanna er með laufabrauðsmunstri ofan á. „Hann varð til fyrir slysni. Það er ungur maður í framleiðslunni hjá okkur sem blandaði óvart saman tveimur bragðefnum, þetta er kókoskarmellubragð.“ Fjórði molinn er svo skreyttur með dökku súkkulaði og er með kókos og marsípani. 

Sá böggull fylgir skammrifi að í staðinn þarf að taka út fjóra mola því að það er bara pláss fyrir 16 tegundir í kassanum. „Reyndar fer þetta mjög vel í fólk, það er mjög spennt fyrir nýju molunum. Margir spyrja um sinn uppáhalds, sérstaklega núggatkrisp sem er langvinsælasti molinn í konfektinu okkar. Hann fer ekkert, stendur sína plikt.“

Gunnar Hansson og Guðrún Gísladóttir ræddu við Silju Mist Sigurkarlsdóttur í Mannlega þættinum þar sem Gunnar tók það á sig að smakka nýju molana.

Mynd með færslu
Hér má sjá þá fjóra mola sem detta út. Nýju molarnir eru á myndinni efst.

Tengdar fréttir

Stjórnmál

Ráðherra rekinn fyrir að áforma sælgætiskaup

Popptónlist

Gísla Marteini mútað með sælgæti

Heilbrigðismál

Við borðum 19 kg. af sælgæti á ári

Sjávarútvegsmál

Sælgætisgerð á Grenivík