Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Björgunarskip Banksy sendir neyðarkall af Miðjarðarhafi

Rescued migrants are helped boarding the Ocean Viking ship, operated by the NGOs Sos Mediterranee and Doctors Without Borders, in the Mediterranean Sea, Tuesday, Aug. 13, 2019. More than 500 rescued migrants are stuck in the Mediterranean on two NGO boats, as Italy and Malta continue to deny them access to their ports. French charity group Doctors Without Borders (MSF) said late Monday in a tweet that it had completed "a critical rescue" of another 105 people onto the Ocean Viking, raising the total number of migrants on board ship to 356. (Hannah Wallace Bowman/MSF/SOS Mediterranee via AP)
Hælisleitendum á Miðjarðarhafi bjargað um borð í skip. Mynd úr safni. Mynd: ASSOCIATED PRESS - MSF/Sos Mediterranee
Björgunarskip, sem fjármagnað er af listamanninum Banksy, er nú strandaglópur á Miðjarðarhafinu með mikinn fjölda hælisleitenda um borð.

Skipið, sem er nefnt eftir franska femínistanum og anarkistanum Louise Michel, hefur frá því í nótt sent út neyðarkall.

Louise Michel hefur verið á siglingu undanfarna daga og hefur verið að reyna að finna höfn sem er reiðubúin að taka á móti hælisleitendum sem teknir voru um borð úti fyrir strönd Líbíu.

Tíu manna áhöfn segir ástandið fara stöðugt versnandi og hefur biðlað til stjórnvalda á Ítalíu, Möltu og Þýskalandi um aðstoð.

„Það er að skapast neyðarástand. Við þurfum hjálp nú þegar,“ sagði í Twitter skilaboðum frá áhöfninni.

Skipið er ófært um að komast áfram fyrir eigin vélarafli og hefur „ekki lengur stjórn á eigin örlögum“ vegna þess mikla fjölda sem er á þilfarinu og um borð í björgunarfleka.

„Ofar öllu öðru er þó að Evrópa hunsar neyðarköll okkar um samstundis aðstoð,“ sagði í einum skilaboðunum.

Um 200 manns eru um borð og segir AFP fréttaveitan ítölsku strandgæsluna hafa tilkynnt á fjórða tímanum í dag að þeir 49 sem væru í mestri þörf fyrir aðstoð hefðu verið teknir um borð í skip strandgæslunnar. 

Að sögn Reuters fréttaveitunnar er ítalska skipið Mare Jonio, sem er í eigu hjálparsamtaka, á leið til aðstoðar. „Þetta er spurning um líf eða dauða,“ sagði í yfirlýsingu frá stjórnendum skipsins sem fordæmdu aðgerðaleysi ítölsku og maltnesku strandgæslunnar.

Um 400 hælisleitendur eru nú um borð í þremur skipum á Miðjarðarhafi og hafa Alþjóða fólksflutningastofnunin (IOM) og Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) sent frá sér sameiginlega yfirlýsingu þar sem lýst var yfir áhyggjum af viðvarandi fjarveru Evrópusambandsríkja í leitar og björgunaraðgerðum á Miðjarðarhafi.

Fréttin hefur verið uppfærð.