Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Apple lokar á framleiðendur Fortnite

29.08.2020 - 06:57
epa08621917 The Fortnite app icon displayed on an iPhone in Miami, Florida, USA, 24 August 2020. US tech giant Apple and game developer Epic Games are in a dispute over the distribution of income from in-app purchases of the game Fortnite.  EPA-EFE/CRISTOBAL HERRERA-ULASHKEVICH
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Tæknirisinn Apple ákvað í gærkvöld að loka á tölvuleikjaframleiðandann Epic Games, sem framleiðir meðal annars hinn geysivinsæla Fortnite. Leiknum var úthýst úr tækjum Apple 13. ágúst eftir uppfærslu þar sem Epic Games reyndi að koma í veg fyrir að Apple hlyti sinn skerf af tekjum leiksins.

Samkvæmt skilmálum Apple hlýtur fyrirtækið 30 prósent af hagnaði þeirra forrita og leikja sem hægt er að sækja í gegnum app-verslun fyrirtækisins. Forráðamenn Epic Games voru ósáttir við þennan ráðahag og hafa sagt þetta einokunarstefnu. Epic reyndi að fá sínu fram fyrir dómstólum, en þar var dæmt Apple í hag og forsvarsmönnum Epic Games ráðlagt að fylgja reglum fyrirtækisins. 

Apple segir í yfirlýsingu að stjórnendur Epic Games hafi ítrekað reynt að fara gegn úrskurði dómarans, og haldi áfram að reyna að brjóta gegn reglum app-verslunarinnar. Apple krefst þess að Epic beini öllum viðskiptum í Fortnite í gegnum Apple-greiðsluþjónustuna, og segjast forsvarsmenn Epic ekki taka þátt í svoleiðis viðskiptaháttum.